136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[14:39]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna frumvarpinu og færi forseta Alþingis þakkir fyrir að hafa leitt það starf sem leiddi til þess að frumvarpið varð til og gert úr garði eins og hér ræðir um.

Spurning var hvort setja ætti sérstök lög með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu eða skipa sérstaka rannsóknarnefnd á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar. Það ákvæði býður upp á ákveðna rannsóknarheimild og viðmiðun, sem ég tel mikilvægt að Alþingi hafi og beiti oftar og meir en gert hefur verið, og gæti myndað ákveðna umgjörð um þá rannsókn sem óneitanlega þarf að fara fram. Hugmyndir voru um að setja fram sérstakt frumvarp til laga, sem í sjálfu sér er ágætt. Málið væri þá í handhöfn Alþingis, en með öðrum hætti en innan ramma og með ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar, sem ég hefði talið vera heppilegt, en verið líkt þessu frumvarpi að öðru leyti. Ég geri ekki athugasemdir við það úr því sem komið er.

Máli skiptir að nefndin geti hafið störf sem fyrst á grundvelli laga sem kveða á um meginatriðin, hrun íslensku viðskiptabankanna og eftirfarandi hrun krónunnar og efnahagslífsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er talað um að tilgangurinn sé að skipa sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að leita sannleikans. Ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði að umtalsefni í ræðu sinni og hv. þm. Ellert B. Schram ræddi einnig áðan varðandi sannleikann og mismunandi mat á því hvað er sannleikur. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tók ákveðna viðmiðun, en sennilega er frægasta viðmiðun sögunnar í guðspjöllunum þegar Jesús Kristur segir Pontíusi Pílatusi að hann sé í heiminn sendur til að bera sannleikanum vitni og Pontíus Pílatus spyr: Hvað er sannleikur? Við því fékk hann ekki svar og hefur mannkynið alla tíð, bæði fyrir og eftir þann tíma, reynt að átta sig á því hvað er sannleikur.

Spurning er um heppilegt orðalag. Bæði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Ellert B. Schram töluðu um að æskilegt væri — eftir því sem ég gat skilið ræður þeirra — að breyta orðalaginu og er það í sjálfu sér mjög einfalt. Upphafssetning 1. gr. gæti þá hljóðað svo: Tilgangur þessara laga er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis rannsaki aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Um það snýst málið, það á að rannsaka. Hver og einn verður svo að draga ályktanir af rannsókninni og niðurstöðum hennar. Ég tel að það orðalag væri heppilegra og þunginn yrði þá á rannsóknina, sem er á grundvelli gildandi laga og siðferðis og lögin fjalla um. Það er síðan þeirra sem fá rannsóknarskýrslu nefndarinnar í hendur að leggja mat á hana og draga ályktanir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um 1. gr. á bls. 10, með leyfi forseta:

„Hér er ætlast til að fram fari upplýsingaöflun og þverfagleg en þó einkum hagfræðileg greining á ástæðum falls bankanna.“

Ég get ómögulega fallist á að einkum sé þörf á hagfræðilegri greiningu á ástæðum falls bankanna. Mikilvægt er að greiningin nái einnig til annarra þátta.

Jafnframt segir neðar á sömu síðu, með leyfi forseta:

„Eins og áður segir er hins vegar ekki fyrirhugað að nefndin fjalli um möguleg, refsiverð brot stjórnenda bankanna í rekstri þeirra.“

Ekki er eðlilegt að hafa takmarkandi ákvæði í greinargerð með frumvarpinu. Nefndin á að hafa rúmar heimildir til að fjalla um málið, jafnvel velta upp hugmyndum um refsiverð brot. Mér finnst að það eigi að koma fram vegna þess að þetta hefur þýðingu sem lögskýringargagn.

Jafnframt segir neðst á bls. 10, með leyfi forseta:

„Rétt er þó að árétta að rannsóknarnefndin getur aðeins sagt álit sitt á ábyrgð einstaklinga.“

Ég hefði haldið að rannsóknarnefndin gæti að sjálfsögðu sagt álit sitt á ábyrgð einstaklinga og stofnana þannig að hér er ekki um neina efnisandstöðu við sjónarmiðin sem liggja til rannsóknar að ræða heldur bara spurning um að rýmka sem allra mest heimildir nefndarinnar.

Rannsóknin ætti að beinast að fjórum, eða hugsanlega fimm, aðilum. Viðskiptabönkunum og öðrum sambærilegum fjármálastofnunum og stjórnendum þeirra, Seðlabanka Íslands og stjórnendum hans, Fjármálaeftirlitinu og stjórnendum þess, ríkisstjórninni og hugsanlega Alþingi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru þetta stóru gerendurnir, leikendur á sviðinu og/eða orsakavaldar þess sem gerðist.

Auka mætti skýrleik laganna með því að bæta við á eftir 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. nokkrum viðbótarmálsgreinum þar sem kveðið væri skýrt á um þessi atriði, í fyrsta lagi: Að rannsaka og gera úttekt á einkavæðingu ríkisbankanna og starfsemi þeirra fram til gildistöku laga nr. 125/2008, neyðarlaganna. Einnig með því að spyrja hvernig og með hvaða hætti hlutirnir fóru af stað. Hv. þm. Ellert B. Schram benti á að gjafakvótinn hefði verið orsök og upphaf þess sem síðar gerðist. Það hafa fleiri gert og ég get tekið undir það.

Í öðru lagi að rannsaka og gera úttekt á starfsemi Seðlabanka Íslands og eftirliti bankans með viðskiptabönkunum og hæfi hans til að vera lánveitandi til þrautavara og annað sem máli kann að skipta varðandi hrun viðskiptabankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Sérstaklega skal rannsaka og gefa álit á viðbrögðum og starfsemi Seðlabankans og samskiptum hans við fjármálastofnanir og ríkisstjórn, sérstaklega frá mars 2008 til gildistöku laga nr. 125/2008.

Af hverju nefni ég mars 2008? Vegna þess að í frægri ræðu sem seðlabankastjóri hélt fyrir nokkru á viðskiptaþingi nefndi hann mars sem ákveðna viðmiðun. Þess vegna tel ég það geta verið nauðsynlega og eðlilega viðbót.

Enn fremur: Að rannsaka og gera úttekt á starfsemi Fjármálaeftirlitsins, reglum sem um það gilda og hvernig það hefur rækt eftirlitshlutverk sitt með fjármálastofnunum og miðlað þeim upplýsingum til annarra stjórnvalda. Hvort Fjármálaeftirlitið hafi viðhaft eðlileg vinnubrögð og upplýsingagjöf og gætt gildandi lagareglna um fjármálastarfsemi.

Til viðbótar þessu: Að rannsaka og gera úttekt á störfum og viðbrögðum ríkisstjórnar Íslands frá því að hún tók við völdum fram til gildistöku laga nr. 125/2008, neyðarlaganna.

Með því að setja inn þessar viðbætur eða skýringar er mun betur afmarkað að hverju rannsóknin á að beinast. Þegar ég les frumvarpið í heild ásamt greinargerðinni finnst mér nauðsynlegt að kveða skýrar á um en þar er gert með hvaða hætti á að gera þetta og mundi það auðvelda og afmarka betur störf nefndarinnar og taka til þeirra meginþátta sem málið snýst um.

Hvað varðar lokamálsgrein 1. gr. og 3. mgr. 2. gr. finnst mér óþarft — eins og reyndar hv. þm. Árni Páll Árnason benti á — að forsætisnefnd skipi vinnuhóp þriggja háskólamenntaðra manna. Í 4. gr. laganna segir að nefndin geti leitað sérfræðilegrar aðstoðar innlendra eða erlendra aðila og er það að mínu viti alveg nægjanlegt. Aukanefnd eins og getur um í 2. gr. er óþörf og er — ef tala á um galla á annars ágætu frumvarpi — helsti gallinn á frumvarpinu.

Varðandi lagaumgjörð fjármálakerfisins er ljóst að þegar EES-reglurnar urðu umgjörð um fjármálakerfið voru þær mun betri reglur en áður höfðu gilt í íslensku umhverfi. Svona hrun sýnir hins vegar að endurskoða þarf reglurnar og er þess krafist um allan heim. Margir ræðumenn hafa spurt í umræðunni: Af hverju eru lögin svona? Af hverju eru lögin með þeim hætti að svona hlutir geti gerst?

Mannanna verk eru aldrei fullkomin og þess vegna þarf löggjafarvaldið, Alþingi, stöðugt að vinna við að endurskoða og breyta lögum og reglum í ljósi þess sem fram kemur um galla á þeim mannanna verkum sem áður hafa komið fram.

Að sjálfsögðu skiptir höfuðmáli hvort lagalega hafi verið rétt staðið að málum eða ekki. Þess vegna get ég ekki verið sammála hv. þm. Ellert B. Schram þegar hann segir að það sé ekki meginatriði. Það er höfuðatriði að fá úr því skorið hvort lagalega hafi rétt verið farið að eða ekki.

Váboðar um íslenskt fjármálalíf voru fyrir hendi og áttu að vera ljósir öllum áður en hrunið varð, jafnvel töluvert áður — tveimur árum áður ef menn fylgdust með, hvar svo sem þeir voru staddir í opinberu lífi og starfi. Verðbólan á húsnæðismarkaðnum var mjög sérstök sem og verðbólan á hlutabréfamarkaðnum. Verðfallið frá því að hlutabréfamarkaðurinn reis hæst og til dagsins í dag nemur hvorki meira né minna en 3.000 milljörðum kr., sem er margföld sú tala sem hv. þm. Pétur Blöndal talar ítrekað um að muni setja þjóðina í eilífan skuldaklafa. Þessi verðmæti hafa horfið úr íslensku efnahagslífi á tiltölulega skömmum tíma.

Krosseignatengsl, veikur gjaldmiðill, verðtrygging og ofurvextir á lán til almennings og bankakerfi sem var mun stærra miðað við þjóðarframleiðslu en annars staðar í heimshluta okkar. Bankakerfið færði okkur milljarða í tekjur — það hefur gleymst í umræðunni — og var undirstaða ákveðinna hluta sem gerðir hafa verið í framhaldinu.

Ég tel, virðulegi forseti, að það liggi fyrir að stjórnvöld gengu ansi hratt um gleðinnar dyr. Vegna umsvifa í fjármálakerfinu juku stjórnvöld ríkisútgjöld til muna, höfðu ekki nægilega aðgát og útþensla og umfang opinberrar starfsemi varð meira en sem nam vexti þjóðarframleiðslunnar. Þrátt fyrir að fjármálageirinn yxi jafnmikið og raun ber vitni með útrás bankanna og annarra aðila var útrás ríkisvaldsins, hins opinbera, mun meiri en nokkurs annars. Þess vegna voru þjóðarútgjöld um 50% og fara væntanlega yfir það núna þegar þjóðarframleiðsla dregst saman vegna þess sem nú hefur gerst.

Virðulegi forseti. Ég leyfði mér að nefna þessi atriði sem mér finnst vera innlegg í umræðuna. Á sama tíma og ég legg áherslu á að frumvarpið fái skjóta meðferð og verði afgreitt sem fyrst, tek ég fram þessi sjónarmið til að skerpa á því sem mér finnst skipta verulegu máli varðandi það að rannsóknarnefndin skili fljótt af sér sem bestri vinnu.