136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[14:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka þeim sem standa að því að flytja þetta mál fyrir þeirra framlag til þess að hér fram fari rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Ég vil jafnframt þakka hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, fyrir að hafa forgöngu um að ráðist yrði í það útbúa það frumvarp sem er til umræðu í þeim búningi sem hér liggur fyrir.

Ég fagna því líka að skapast hafi þverpólitísk samstaða um að flytja málið og eins og sjá má af frumvarpinu eru það formenn allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi ásamt hæstv. forseta sem flytja málið.

Ég tel að eins og það er lagt fyrir hafi náðst mjög góð niðurstaða um hvernig haga eigi rannsókn þessari. Ég tel að vel hafi tekist til með tillögu um hvernig skipa eigi þá nefnd sem hafa á yfirumsjón með málinu. Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að tekist hafi býsna vel að afmarka það rannsóknarefni sem hér er til umfjöllunar og frumvarpið kveður á um.

Ég fagna því einnig sérstaklega að þeirri nefnd sem skipuð verður verði heimilað að leita sér sérfræðilegrar aðstoðar innlendra eða erlendra aðila við mat á einstökum þáttum rannsóknarinnar enda hlýtur sú heimild að vera mjög mikilvæg, ekki síst í því litla samfélagi sem við búum í þar sem maður þekkir mann. Gera má ráð fyrir að innlendir aðilar kunni við einhverjar aðstæður að vera settir í óþægilega stöðu ef þeir þurfa að rannsaka verk vina sinna eða venslamanna og leggja dóm á hvernig fram hefur verið farið.

Það er auðvitað ljóst að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis. Það er jafnframt ljóst að við slíkar aðstæður er sjálfsagt og eðlilegt að menn rannsaki og greini hvað það var sem leiddi til þess að fjármálakerfið okkar hrundi með þeim hræðilegu afleiðingum sem við höfum orðið vitni að fyrir fyrirtækin okkar og fólkið í landinu.

Ég leyfi mér að halda því fram þar til annað verður leitt í ljós að sjaldan eða aldrei hefur verið lögð fram tillaga í formi frumvarps á Alþingi sem felur í sér jafnvíðtæka rannsókn á samfélagi okkar, ekki bara bankakerfinu heldur í þjóðfélaginu öllu eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég lít þannig á að það frumkvæði sem hæstv. forseti Alþingis sýnir hér ásamt formönnum stjórnmálaflokkanna sé ekki bara komið fram vegna hugmynda hæstv. forsætisráðherra heldur líka út af kröfu þingmanna um að farið verði ofan í málið og kröfu almennings sem við kjörnir fulltrúar höfum orðið vör við á síðustu vikum og mánuðum í kjölfar þess að fjármálakerfið okkar hrundi. Ég lít þannig á að með þessu frumvarpi og þeirri vinnu sem fram undan er sé þingið að sýna að það vill koma til móts við kröfur almennings í landinu um að rannsakaður verði aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna.

Eins og ég sagði áðan tel ég að verkefni þessarar nefndar hafi verið skynsamlega afmarkað í frumvarpinu. Henni er ætlað að varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda sem varð til þess að íslenska bankakerfið féll. Menn geta auðvitað deilt um hvort sannleikanum verði á endanum náð í því nefndarstarfi en ég lít þannig á að hvernig sem það ákvæði, þ.e. 1. gr., er orðað sé fyrst og fremst markmið þessarar vinnu að rannsaka aðdraganda og orsök falls bankanna.

Ég fagna því að gerð verði úttekt á þeim reglum sem gilda samkvæmt íslenskum lögum um fjármálamarkaði og gerður verði samanburður á reglum annarra landa og framkvæmd stjórnvalda á þeim. Ég tel mjög mikilvægt eins og segir í þriðja lið 1. gr. að lagt verði mat á hvernig staðið hefur verið að eftirliti með fjármálastarfsemi hér á landi á síðustu árum og upplýsingagjöf af því tilefni milli stjórnvalda til ríkisstjórnar og Alþingis.

Í ræðum í dag hafa menn nefnt fjölmörg atriði sem leiða má líkur að að hafi orsakað að svo fór sem fór, hvers vegna íslenska fjármálakerfið hrundi og gerði hv. þm. Pétur H. Blöndal því ágæt skil. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hans að fjölmörg atriði koma til skoðunar eins og krosseignatengsl félaga, eigenda fjármálafyrirtækja og fyrirtækja á markaði. Það má líka halda því fram að íslensk lög um fjármálamarkaðinn hafi verið ófullkomin og ekki síður þær lagareglur sem okkur ber að framfylgja í þessari starfsemi sem leiða má af reglum Evrópuréttarins. Allt það hlýtur að koma til skoðunar og ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þegar nefndin fer yfir þessi atriði er sjálfsagt að vega það og meta hvort ástæða sé til í tengslum við störf okkar á vettvangi EES-samningsins að koma á framfæri tillögum um breytingar á þessum reglum á alþjóðavettvangi vegna þess að þær reglur hafa reynst handónýtar fyrir íslenska fjármálamarkaðinn. Mér finnst sjálfsagt að ef þeir sérfræðingar sem eiga að vinna þessa vinnu komast að þeirri niðurstöðu komi þeir sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ég hef tekið eftir því að í þessari umræðu hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einkum og sér í lagi hv. þm. Ögmundur Jónasson, vakið máls á því að sú rannsókn sem fyrirhuguð er skuli ná allt til þess tíma þegar bankarnir voru hlutafélagavæddir og í kjölfarið einkavæddir. Ég set mig auðvitað ekki upp á móti því að slíkt verði gert. Það má vel vera að standa hefði átt öðruvísi að einkavæðingu bankanna en gert var svo sem með tilliti til dreifðs eignarhalds og fleiri atriða. En ég held að í þessu sambandi sé mikilvægt að menn ræði uppbyggingu fjármálakerfisins í heild sinni og þátt ríkisins í þeirri uppbyggingu.

Það má t.d. velta því fyrir sér, og það er nú vinkill á málinu sem ég hygg að ekki hafi verið ræddur í þessari umræðu, hvort ríkisábyrgð á íslensku bönkunum, þ.e. að ríkið og Seðlabanki Íslands sem lánveitandi bankanna til þrautavara mundu hlaupa undir bagga ef á þyrfti að halda, hafi mögulega gert það að verkum að þeir stækkuðu meira en íslenska hagkerfið stóð undir. Mér finnst eðlilegt að yfirlýsingar í þá veru séu skoðaðar og metið hvaða þýðingu þær höfðu.

Það er hefur margoft komið fram og ég held að það séu almenn sannindi að íslensku bankarnir voru of stórir fyrir íslenska hagkerfið. Stærð þeirra olli okkur verulegum vandræðum sem nú eru orðin að raunveruleika. En menn hljóta, þegar þeir ráðast í rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, að velta fyrir sér hvernig það gat gerst að bankarnir urðu svona stórir. Hvernig gat það gerst að íslenska fjármálakerfið varð tíu sinnum stærra en íslenska hagkerfið? Var það vegna þeirra lagareglna sem bankarnir störfuðu eftir? Var einhverju ábótavant í eftirlitinu með fjármálamarkaðnum? Það eru spurningar sem þarf að skoða.

Það þarf líka að rannsaka þýðingu þess að hugsanlega allir sem að þessum málum komu og litu svo á að ríkið væri bakhjarl bankanna og þá Seðlabanki Íslands sem lánveitandi til þrautavara, hvort það hafi mögulega leitt til þess að bankarnir uxu jafnmikið og raun varð á sem varð íslenska hagkerfinu ofviða.

Því er auðvitað mismunandi farið í löndunum í kringum okkur hvernig með þá þætti er farið. Í sumum löndum er það yfirleitt stefna stjórnvalda að ríkin séu ábyrg og muni ábyrgjast skuldir bankanna og seðlabankar ríkjanna eru lánveitendur til þrautavara en í öðrum löndum er það ekki svo. Ég hygg t.d. að í Lúxemborg hafi stjórnvöld lýst því margoft yfir að fari bankar á hausinn muni ríkið, sem er nú fjármálamiðstöð, ekki draga slíka banka að landi. Það er kannski ástæðan fyrir því að bankar í Lúxemborg fara ekki á hausinn vegna þess að þeir vita að geri þeir það verður þeim ekki komið til bjargar. Það er kannski þess vegna sem fjármálastofnanir sem vita að þeim verður ekki bjargað lendi þær í kröggum, sníða þær sér stakk eftir vexti.

Hér á Íslandi fóru ráðamenn að minnsta kosti varlega í yfirlýsingum um að ríkið mundi standa á bak við bankana ef illa færi. En það er hins vegar hugsanlegt að engu að síður hafi menn sem að þessum málum komu, litið svo á, þrátt fyrir að afdráttarlausar yfirlýsingar um að ríkið væri ekki bakhjarl bankanna, að sú væri raunin. Maður veltir því t.d. fyrir sér þegar maður skoðar aftur í tímann alþjóðlegu lánshæfiseinkunnir matsfyrirtækjanna hvort þær hafi hugsanlega ekki verið eins góðar og þær voru taldar vegna þess að þeir sem gerðu þær töldu að ríkið stæði sterkt á bak við bankana. Það getur verið að það hafi spilað inn í það mat sem þessi alþjóðlegu matsfyrirtæki lögðu á bankana.

Það má velta því fyrir sér hvort bankakerfið hefði stækkað með þeim hætti sem við urðum vitni að ef þeir aðilar sem lögðu mat á lánshæfi bankanna hefðu vitað að þeir yrðu ekki dregnir að landi ef illa færi.

Ég tel að taka þurfi þessa hluti til umfjöllunar í þessari rannsókn ásamt mörgu öðru. Það er ótrúlega víðtækt verkefni sem nefndin fær til athugunar og mér fannst ástæða til þess að benda á það í þessari umræðu. En svona almennt séð fagna ég því að málið sé komið fram. Ég fagna því að skapast hafi um það þverpólitísk samstaða hér á þingi og ég tel að með framlagningu þessa frumvarps sem vonandi verður hægt að afgreiða sem allra fyrst úr þinginu sé komið til móts við þær kröfur sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um rannsókn á þessum málum. Ég fagna því að það sé gert á vettvangi þingsins.