136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[15:09]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdum atburðum, en tilgangur rannsóknarinnar er að leita upplýsinga um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði og leggja mat á það hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða í framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Ég tel samþykkt þessarar tillögu vera mjög mikilvæga og hafa ekki síst þann tilgang að skapa sátt í samfélagi okkar á ný, bæði nú þegar ákvörðun verður tekin um að hefja slíka rannsókn en ekki síður þegar niðurstaðan liggur fyrir.

Fall bankanna kemur við hvert heimili í landinu með einum eða öðrum hætti, hvort heldur með beinu tapi fjármuna og sparnaðar eða afleiðingum þeirrar kreppu sem fall bankanna hefur í för með sér, atvinnuleysi, hárri verðbólgu með hækkun afborgana lána heimilanna og minni ráðstöfunartekjum heimilanna svo að ekki séu nefndir draumar sem hurfu með því að sparnaðurinn fauk.

Í Morgunblaðinu í morgun er m.a. skýrt frá því að um 11 þúsund manns, tæpur þriðjungur eldri borgara 65 ára og eldri, hafi tapað samtals 30 milljörðum kr. á falli bankanna og þá eingöngu með tapi í hlutabréfum samkvæmt gengi í lok september. Er þá ótalið tap vegna lækkunar hlutabréfa fram til þess tíma, og það var töluvert. Hver þessara einstaklinga tapaði að meðaltali 2,7 millj. kr. en ef að líkum lætur hefur þetta áhrif á mun stærri hóp ef hlutabréfin eru skráð á einn einstakling en eru eign hjóna. Þá er náttúrlega einnig ótalið tap af sparnaðarreikningi.

Önnur hlið málsins, sem er þó að sumu leyti ótengd en segir töluvert til um í hvaða umhverfi við búum núna, snýr að frétt Morgunblaðsins um eignarhaldsfélagið Gift sem var stofnað til að halda utan um eignir og skuldbindingar eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga. Þar lá vonarfé sem hafði verið tilkynnt að yrði dreift til réttmætra eigenda samkvæmt einhverjum reglum sem ég þekki ekki en ljóst að félagið er ekki lengur borgunarfélag fyrir og skuldar félagið nú á þriðja tug milljarða kr. sem er niðurstaða fjárfestingarfjárhaldsmanna félagsins. Varla koma þó þessi viðskipti til skoðunar í rannsóknarnefndinni sem hér er mælt fyrir en örugglega mun almenningur krefjast upplýsinga þar um.

Það er réttur og krafa fjölskyldnanna í landinu að fá að vita hvað hefur gerst, hvað í kerfinu hefur brugðist og hverjir bera ábyrgð. Fyrrverandi landlæknir, Sigurður Guðmundsson, hefur m.a. líkt falli bankanna við jarðskjálfta. Þegar jarðskjálfti ríður yfir þarf fólk að vita m.a. hvar upptökin urðu, hve stór hann var, hve víðtæk áhrifin urðu á samfélagið, hvort fólk hafi dáið eða slasast og hvernig viðbragðskerfin hafi brugðist við og staðist álagið. Fárviðrinu í fjármálakerfinu og falli bankanna má líkja við efnahagslegan jarðskjálfta og hluti af ferlinu til að ná utan um þennan atburð er að fá allar upplýsingar til að skýra hann. Til viðbótar þarf að upplýsa um hver beri ábyrgð á falli bankanna og ástandinu í kjölfarið sem liggur yfirleitt fyrir þegar jarðskjálfti af náttúrulegum völdum er orsökin.

Það má segja að þetta sé kjarni þeirrar tillögu sem hér er verið að fjalla um, þ.e. um ábyrgðina. Þessa tillögu þarf einnig að skoða í samhengi við frumvarp frá hæstv. dómsmálaráðherra sem nú er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi, frumvarp um sérstakan saksóknara til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði sem leiddu til setningar neyðarlaganna.

Styrkur þessarar tillögu um skipan rannsóknarnefndar er að hún beinist bæði að fjármálafyrirtækjum og starfsmönnum þeirra og að viðeigandi stjórnvöldum til að leiða í ljós aðdraganda og orsakir þess að íslenska bankakerfið féll og varð tilefni til þess að hv. Alþingi setti neyðarlög í október sl. Hún hefur heimild til þess að kalla til alla þá sérfræðinga, erlenda sem innlenda, sem nefndin telur nauðsynlegt til að upplýsa málið. Þá er nefndinni einnig ætlað að koma með ábendingar og tillögur um viðbrögð við niðurstöðum rannsóknarinnar hvað varðar breytingar á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu þannig að regluverkinu verði breytt til að koma í veg fyrir að nokkuð slíkt geti endurtekið sig í framtíðinni. Jafnframt er nefndinni gert að koma með ábendingar hvort um refsivert athæfi hafi verið að ræða og beina því til viðeigandi aðila.

Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og að nefndin verði eins og fram kemur í frumvarpinu. Í greinargerð með því er greint frá þeirri niðurstöðu að skipa sérstaka rannsóknarnefnd sérfróðra aðila til að fara ofan í saumana á falli bankanna. Þá er einnig rökstutt af hverju ákveðið var að fara ekki þá leið sem mælt er fyrir um í 39. gr. stjórnarskrárinnar en það er heimildarákvæði um að skipa megi nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er varða almenning. Alþingi getur veitt þessum nefndum heimild til að afla allra gagna, munnlegra sem skriflegra, af embættismönnum og einstökum mönnum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. um þetta efni, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að ríkisvaldið horfi enn fremur í eigin barm og athugi hvort því hafi brugðist bogalistin. Þar sem rannsókn á þætti ríkisvaldsins í þessari atburðarás getur öðrum þræði beinst að aðgerðum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra er eðlilegt að hún fari fram á vegum Alþingis. Byggist það á því að ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarathöfnum gagnvart Alþingi með vísan til þingræðisreglunnar og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Alþingi fer því með eftirlit með störfum ráðherra og þeirri stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Hér er einnig ástæða til þess að huga að upplýsingagjöf ráðherra til Alþingis og stefnumörkun Alþingis í þessum málaflokki og þá með hliðsjón af því sem gert hefur verið í nágrannalöndum okkar sem búa við hliðstætt réttarkerfi. Eðli málsins samkvæmt þarf í þessu sambandi að taka tillit til íslenskra aðstæðna og þá meðal annars stærðar þjóðarbúsins í samanburði við vöxt fjármálafyrirtækjanna.

Stjórnarskráin býður upp á ákveðna leið til að efna til rannsóknar af þessu tagi. Í 39. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að Alþingi geti skipað rannsóknarnefnd alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Á það hefur verið bent að ekki sé heppilegt að alþingismenn sinni sjálfir slíkri rannsókn. Hætta sé á því að þeir hafi í pólitískri umræðu um málið gefið yfirlýsingar sem liti skoðun þeirra á öllu því sem síðar kann að koma fram. Þá hafa sumir talið að ekki sé trúverðugt að stjórnmálamenn annist grunnrannsókn á vinnubrögðum stjórnmálamanna. Betra sé að fá til verksins óháða sérfræðinga sem hafi staðið utan við átök stjórnmálanna.“

Því hefur verið haldið fram, virðulegi forseti, að það ákvæði stjórnarskrárinnar sem mælt er fyrir um í 39. gr. stjórnarskrárinnar sé með öllu óvirkt enda beinist málaðstæður eða málefni sem eru tilefni tillagna um skipan rannsóknarnefndar á grundvelli ákvæðisins yfirleitt að sitjandi ráðherra eða málaflokki hans sem stjórnarmeirihlutinn ver. Á síðustu 40 árum hafa um 50–60 tillögur um skipan rannsóknarnefndar með stoð í 39. gr. stjórnarskrárinnar verið fluttar en allar utan ein verið felldar. Þá er heimild í þingskapalögum að fela fastanefndum þingsins ákveðið rannsóknarvald en það ákvæði hefur einnig sjaldan verið nýtt.

Sú skoðun hefur komið fram að þar sem þessum ákvæðum hafi ekki verið beitt skorti mikilvægan grundvöll virkrar ráðherraábyrgðar sem er nauðsynlegur þáttur í uppbyggingu okkar lýðræðisþjóðfélags. Jafnframt sýnir reynslan frá nágrannalöndum okkar að rannsókn eftirlitsnefnda sem þingið setur til starfa er oft forsenda þess að unnt sé að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir afglöp eða misfellur í starfi. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig megi styrkja rétt minni hluta á þingi til eftirlits með framkvæmdarvaldinu, t.d. með því að tiltekinn fjöldi þingmanna, t.d. þriðjungur þeirra, geti krafist skipanar rannsóknarnefndar á grundvelli ákvæðisins í stað meiri hluta þingmanna í dag. Sá möguleiki væri þó fyrir hendi að í stað þess að skipa þingmenn í slíkar rannsóknarnefndir væri hægt að skipa menn utan þings, t.d. sérfræðinga, rannsóknardómara o.s.frv. Með heimildum sem þessum væri lýðræðið styrkt og aðhald við stjórnarmeirihlutann aukið.

Ýmis efnisleg rök hafa verið færð gegn því að ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar sé beitt eins og komið hefur fram. Þannig sé það t.d. meginforsenda við rannsókn mála að rannsakendur komi að málinu fordómalaust og með opnum huga. Rannsóknarnefnd sem skipuð væri þingmönnum sem hefðu fyrir fram ákveðnar skoðanir á viðkomandi máli og hafa beitt því með rökstuðningi í umræðum um skipan rannsóknarnefndar væri eftir að hafa kveðið upp þunga og harðorða dóma varla til þess bær að taka þátt í rannsókn viðkomandi máls.

Í skýrslu sem ber heitið Könnun á hlutverki rannsóknarnefnda löggjafarþinga í tólf aðildarríkjum Evrópubandalagsins og er frá byrjun síðasta áratugar er gerð grein fyrir stöðu þessara mála í viðkomandi löndum. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að í 11 löndum af þeim 12 sem skoðuð voru hafi þingin heimildir til þess að skipa rannsóknarnefndir sem hefðu það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og upplýsa um lögbrot eða tilhneigingar í þá átt með því að rannsaka athafnir ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda. Í öllum tilvikum utan þýska þingsins þarf meiri hluti þingmanna að samþykkja skipan nefndarinnar. Í Bretlandi var hins vegar sú leið farin að fela stofnunum óháðum þinginu það verkefni að rannsaka lögbrot hjá hinu opinbera og slíkt fyrirkomulag hefur tíðkast frá árinu 1921. Ætlunin er í því tilviki að tryggja að rannsóknin verði ekki fyrir pólitískum áhrifum frá stjórnmálaflokkum. Þessar upplýsingar eru þó settar fram með þeim fyrirvara að þær eru komnar til ára sinna, en þær birtust m.a. í þingsályktunartillögu þáverandi hv. þm. Svavars Gestssonar sem hann flutti um breytingar á ráðherraábyrgð árið 1994.

Með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er tekin sú afstaða að skipa rannsóknarnefnd sem í eiga sæti sérfróðir aðilar en ekki er farin sú leið að skipa þingmenn í slíka nefnd eins og mælt er fyrir í 39. gr. stjórnarskrárinnar, enda má segja að það sé rökrétt vegna þess að hér er rannsóknarnefndinni ætlað að horfa til fleiri aðila en stjórnvalda, það er horft til aðila sem voru eigendur að og stjórnendur í fyrirtækjum sem voru í einkaeigu.

Ég tek undir með hæstv. forseta Alþingis sem sagði í framsögu sinni að segja mætti að hér hafi verið brotið blað að ákveðnu leyti í þingsögunni. Þegar þessi skipan er sett í samhengi við skipan rannsóknarnefndar vegna Breiðavíkurmálsins má segja að verið sé að setja rannsóknarnefndir á vegum þingsins í ákveðinn farveg sem var óþekktur áður, eins og kom hér fram, því að rannsóknarnefndir hafa ekki tíðkast á hinu háa Alþingi.

Síðan fagna ég jafnframt því sem kom fram í máli hæstv. forseta Alþingis, að hann hefði skipað nefnd til þess að endurskoða ákvæði um skipan rannsóknarnefndar á vegum Alþingis og að sú nefnd mundi skila á vormánuðum. Er það vel.

Með þessu vil ég sem sagt að lokum lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp skuli komið fram. Ég er þeirrar skoðunar að með því séu ákveðin þáttaskil í þessu máli. Skipuð er nefnd til að skoða hvað olli því ástandi sem er hér í dag. Það er mikil reiði í samfélaginu og ég held að eins og frumvarpið er byggt upp megum við eiga von á vönduðum vinnubrögðum og að ekkert verði undanskilið og þá liggi fyrir ákveðin niðurstaða sem mun örugglega valda miklum umræðum í samfélaginu en niðurstaðan verður þá a.m.k. sú að einhverju þurfi að breyta og að einhverjir aðilar bera ábyrgð á þessu. Þeirra er leitað hér.