136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég er nú ekki viss um að það væri mjög skynsamleg breyting á þessu frumvarpi að fella út það sem talað er um í 1. gr., að leita eigi sannleikans í þessu máli. En það lítur hver sínum augum á silfrið, eins og sagt er.

En hvað varðar grundvallarbreytingar á frumvarpinu get ég alls ekki mælt með því. Við höfum flutt hér frumvarp sem gerir ráð fyrir því að nefndin sé þriggja manna rannsóknarnefnd. Hún er þriggja manna samkvæmt tillögu í frumvarpinu vegna þess að hún á að stjórna þessu verki og það skiptir miklu máli vegna þess að mikilvægt er að rannsóknin vinnist á skömmum tíma, að það sé öflugur hópur, snar í snúningum, sem stýrir þessari vinnu. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati.

Hvað varðar önnur atriði sem fram komu hjá hv. þingmanni tel ég að allsherjarnefndin hljóti að fara yfir þau og ég ætla ekki að gefa neinar sérstakar leiðbeiningar um annað en ég tel að það samkomulag sem birtist í þessu frumvarpi sé mjög athyglisvert. Mér finnst umræðan hér í dag benda til þess að hv. þingmenn séu býsna ánægðir með þá niðurstöðu.