136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi þau mörk sem eru á milli rannsóknarnefndarinnar og þess starfshóps sem hv. þingmaður kallar siðfræðinefndina. Eins og fram kemur í frumvarpinu er afmarkaður sá verkefnarammi sem rannsóknarnefndinni er ætlaður og þar inni er það verkefni sem starfshópnum er ætlað að sinna. Gert er ráð er fyrir að rannsóknarnefndin hafi niðurstöðu starfshópsins fyrir sér þegar hún lýkur störfum þannig að sú vinna verður að sjálfsögðu innbyggð í niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar ef hún telur það eðlilegt.

Hvað varðar það hvort færa eigi inn sérstök ákvæði í ljósi þess sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér um tilflutninga eða millifærslur óeðlilegra fjármagnsflutninga o.s.frv. vil ég benda á að í greinargerðinni er fjallað alveg sérstaklega um þetta atriði þar sem segir:

„Verði nefndin t.d. vör við að óeðlilegir fjármagnsflutningar hafi átt sér stað í bönkunum í þágu eigenda þeirra eða tengdra aðila ber henni að vísa málinu til opinberrar rannsóknar.“

Ég tel að frumvarpið geri ráð fyrir að þau atriði sem hv. þingmaður nefndi séu til sérstakrar skoðunar og það er mjög mikilvægt.