136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kannast ekki við að komið hafi fram í opinberri umræðu að það liggi fyrir lánveitingar og þau kjör sem þar er um að ræða. Það er ósamið um það. Ég geri ráð fyrir að farið verði í þær viðræður í næstu viku, að semja við aðilana um lánin og þau kjör sem á þeim verða.

Hvað varðar hryðjuverkalögin í Bretlandi þá er enn frysting á eignum Landsbankans þar. Það er auðvitað til mikils vansa fyrir Breta hvernig þeir stóðu þar að málum og við getum öll sammælst um að það var þeim ekki til mikils sóma nema síður sé. En ég get alls ekki tekið undir að þessi einhliða aðgerð Breta sé á ábyrgð Evrópusambandsins, þeir verða að sjálfsögðu að bera fulla ábyrgð á því sjálfir og það er ekki hægt að vísa henni á einhvern annan eins og hv. þingmaður gerði hér. Bretar verða sjálfir að bera þá ábyrgð og við verðum auðvitað að skoða eftir öllum tiltækum leiðum hvernig við getum sótt mál gagnvart þeim fyrir þessa aðgerð.

Hvað varðar þær eignir sem eru í búinu eins og hjá Landsbankanum er alveg rétt hjá þingmanninum að þær verða væntanlega seldar á löngum tíma, það getur skipt máli að taka sér tíma í að selja þannig að sem mest virði fáist fyrir þær. Þá er einmitt gert ráð fyrir að það lán sem við fáum mæti þeim greiðslum sem koma til á þeim tíma og hugsanlegir skilmálar á láninu geti á einhvern hátt mætt þeirri stöðu að andvirði fyrir eignirnar kemur ekki inn nema á talsverðum tíma.