136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:07]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mikið er undir í þessu þingmáli eins og fram hefur komið, bæði í framsöguræðu ráðherra og í síðustu þingræðu, og fyrsta spurningin er auðvitað: Hver er tilgangurinn með þingmálinu og hvað leiðir af því? Ég tel það jákvætt skref að ríkisstjórnin leggi mál fyrir þingið í ríkari mæli en verið hefur og leiti eftir afstöðu þess þannig að ég get ekki fallist á að neikvætt sé að koma með málið hingað. Hins vegar er spurningin: Hvað felst í tillögunni sem lögð er fyrir þingið? Mér finnst ekki felast neitt annað í tillögunni en að ráðherrann fái umboð til að starfa, sem hann hefur þegar frá stjórnarflokkunum. Ég geri ekki ráð fyrir því að ráðherrar telji umboð sitt svo í hættu í þessu máli að þeir þurfi að sækja sér aukinn stuðning í raðir stjórnarandstöðunnar þannig að ég sé ekki að samþykkt þingsályktunartillögunnar bæti við umboð ráðherrans samkvæmt stjórnskipun okkar þar sem ráðherrar starfa á ábyrgð þingmeirihlutans.

Í öðru lagi fæ ég ekki séð að samþykkt tillögunnar feli í sér fjárhagslegar skuldbindingar vegna þess að ekki er hægt að samþykkja fjárútlát öðruvísi en með lögum. Það verður ekki gert með þingsályktun þannig að ég held að ráðherra þurfi að skýra frekar að hverju er stefnt með tillögunni sem hér er flutt. Felst í henni að mati ráðherrans yfirlýsing þingsins um fjárhagslega skuldbindingu, um fjárhæð sem er óviss. Telur ráðherra að óhætt sé fyrir viðeigandi aðila að skrifa undir samninga sem skuldbindi Tryggingarsjóð innstæðueigenda með ábyrgð ríkissjóðs eftir að samþykkið liggur fyrir? Það þarf að skýra áður en lengra er haldið í meðferð á þingsályktunartillögunni.

Síðan er það málið sjálft, viðmiðin sem lögð eru til grundvallar og eiga að vera forsenda samninganna segja í sjálfu sér ekki mikið. 1. töluliðurinn er sá sem mér finnst vera mest afgerandi og þar segir að aðilar hafi komið sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar gildi á Íslandi með sama hætti og í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Ég held að það eigi við um alla löggjöf sem gildir á EES-svæðinu að hún gildi með sama hætti í öllum ríkjum. Það er grundvöllur samstarfs ríkjanna í Evrópusambandinu og sami grundvöllur er notaður í EES-samningnum þannig að fljótt á litið er ekki að sjá að neitt nýtt sé í þessu orðalagi þannig að ég spyr: Hvar er hið nýja sem felst í þessu? Mér fannst ráðherrann tala út frá því að þetta orðalag þýddi að við hefðum fallist á kröfu Evrópusambandsins um að ábyrgjast innstæður upp að lágmarksfjárhæðinni 20.887 evrum. Er það rétt? Hefur ríkisstjórnin samþykkt að fallast á þá kröfu Evrópusambandsins og munu viðræðurnar ganga út frá þeirri forsendu? Um það snýst allt. Ég held að málið hljóti að byggjast á því enda fannst mér framsöguræðan gefa til kynna að fallist hafi verið á þá kröfu þrátt fyrir að ýmsir aðilar innan lands hafi haldið öðru fram, bæði ráðherrar og sérfræðingar hjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, ef ég man rétt. Hvers vegna fellur ríkisstjórnin frá fyrri málflutningi sínum og sjónarmiðum sérfræðinga? Mér finnst það vera kjarnaatriði í málinu. Er það vegna þess að lögfræðilegi málflutningurinn var byggður á sandi? Lögðu gagnaðilarnir fram gögn í málinu sem sýndu svo að ekki varð um villst að við færum með fleipur? Fóru þá íslenskir ráðamenn með fleipur fyrir íslenskan almenning í nokkra daga? Það hlýtur að vera niðurstaðan, virðulegi forseti.

Ef niðurstaðan er að lögfræðilegur grundvöllur okkar hafi verið svo veikur að menn treysti sér ekki til að standa á honum, finnst mér ábyrgðarhluti að hafa haldið honum fram. En þá er líka skiljanlegt að ekki sé þæfst meira í því sem er tapað stríð og ef gögn málsins sýna að menn óðu reyk allan tímann í þessum málflutningi get ég skilið ríkisstjórnina. Til lítils er að berjast fyrir einhverri lagatúlkun ef enginn annar fæst til að samþykkja hana, ekki einu sinni Norðmenn. Málið verður skiljanlegra ef það er þannig vaxið, en það þarf að upplýsa, virðulegi forseti, þannig að almenningur geti skilið til hlítar þessa kúvendingu í afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar. Engu að síður er býsna langt gengið að afsala okkur að öllu þeim rétti að láta dómstóla skera úr um ágreining. Mér finnst ansi langt gengið að kasta því fyrir róða, sérstaklega þar sem fjárhæðirnar eru svo háar.

Þetta mál snýr ekki allt að einum aðila. Sá sem skuldbindur sig er hinn íslenski Tryggingarsjóður innstæðueigenda með ábyrgð ríkissjóðs. Forsvarsmenn sjóðsins munu borga út lágmarkstrygginguna, yfir 600 milljarða kr., og verða að skuldbinda sjóðinn fyrir þeim skuldum og það verður fyrst og fremst ríkissjóður sem mun borga þær á komandi árum. Tekjurnar af því sem standa á til tryggingar, eignir Landsbankans, munu ekki renna í innstæðutryggingarsjóð. Þær eru hluti af eignum gömlu bankanna og allsendis óvíst að andvirði eigna Landsbankans, sem verða seldar í fyllingu tímans, dugi til annars en að ganga upp í þær kröfur sem verða á gömlu bankana. Ekki er annað að skilja þó að ekki komi fram nákvæmar upplýsingar um skuldir gömlu bankanna en að nóg sé af kröfuhöfum með nógu háar kröfur til að dekka allar þær eignir sem Landsbankinn kann að eiga og hægt verður að koma í verð. Ég óttast því að þegar upp verði staðið og búið að selja eignir Landsbankans verði ekkert eftir til að leggja inn í tryggingarsjóðinn og það þýðir að allir þessir 640 milljarðar kr. falla á íslenska ríkið, á íslenska skattgreiðendur. Ekki bara mismunur á áætluðu söluverði og skuldaviðurkenningu heldur öll skuldin. Ég held að sá veruleiki að íslenskir skattgreiðendur sitji uppi með alla skuldina sé miklu nær því sem búast má við en því sem dregið er upp hér og víðar að bara mismunurinn geti hugsanlega fallið á ríkið.

Mér finnst, virðulegi forseti, að í þessum viðræðum eigi íslenska ríkið ekki að semja við Breta nema í samningunum verði samið um lágmarksverð fyrir eignir Landsbankans. Bretar hafa skaðað íslenska hagsmuni með því að beita hryðjuverkalögunum og fellt eignir bankans í verði. Ekki er hægt, virðulegi forseti, að leggjast svo á hnén að menn geri ekki einu sinni þá kröfu til Breta að þeir leggi fram ábyrgð breska ríkisins fyrir skaðanum sem mun verða ljós þegar eignirnar hafa verið seldar Ég held að menn verði að gæta þess í þeim samningum að halda fram íslenskum hagsmunum af fullum þrótti, virðulegi forseti.