136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:17]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta er í sjálfu sér dapurlegur dagur fyrir ríkisstjórnina og reyndar fyrir þjóðina alla ef svo fer sem horfir, að íslenskur almenningur eða íslenskir skattgreiðendur þurfi að taka á sig ábyrgðir útrásarbankanna erlendis, í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi, hundruð milljarða kr. án þess að hafa átt þar nokkra hlutdeild að. Það er líka dapurlegt að þessir svokölluðu Icesave-reikningar sem hér er verið að fjalla um og sækjast eftir opinni heimild af hálfu Alþingis til að mega ganga til upp á nánast hvaða greiðslu sem er á þessum skuldbindingum, að einmitt þessir gjörningar, þessi útrás, þessir reikningar og það sem á eftir fylgdi hafa stórskaðað svo mannorð Íslendinga í fjármálaheiminum að talað er um að það taki ár eða áratugi að vinna það til baka. Hér er ekki einungis um að ræða fjárhagslegt tjón, heldur líka alveg gríðarlegt tjón á því sem öllum þjóðum er mikilvægast, þ.e. góðu orðspori og trúnaði hvar sem við förum um.

Auk þess er alveg sérstakur kapítuli hvernig stjórnvöld hafa haldið á þessum málum alveg frá óvissu þessara reikninga í Bretlandi og Hollandi á fyrsta degi, umgjörð þeirra og allt til dagsins í dag. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls um þetta, það er mjög óeðlilegt að Alþingi afgreiði svo opna heimild handa ríkisstjórninni sem hér er farið fram á.

Ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér heimild til að leita hófanna um þessa samningagjörð fyrir hennar hönd. Áður en gengið verður til þessa eða heimildin veitt verða að vera komnar fram mjög ítarlegar upplýsingar um hvað er á ferðinni. Það verður að gera nákvæma grein fyrir því og ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig hefur verið farið ofan í rökin, og liggur sérstök greinargerð fyrir af hálfu þeirra lögfræðinga sem m.a. ríkisstjórnin hefur stuðst við sem telja að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þessa reikninga að því marki sem krafist er? Liggur sú greinargerð fyrir? Hefur það verið tekið saman? Mér finnst alveg einboðið að það sé gert áður en málið fer lengra. Upphæðir lánanna stangast á. Hæstv. utanríkisráðherra segir að upphæðirnar séu ekki frágengnar en svo koma fréttir að utan um að þær séu það. Hvers vegna er ekki lagt fram það bréf sem er viljayfirlýsing sem Árni Mathiesen fjármálaráðherra skrifaði undir í New York við Hollendinga? Það er búið að biðja ítrekað um þetta bréf. Hvers vegna er það leyndarmál? Hvers vegna þarf Alþingi að fá heimild fyrir undirskrift Árna Mathiesens fjármálaráðherra sem fór fram í byrjun október? Hér er verið að sækja heimild fyrir þeirri undirskrift.

Frú forseti. Það er m.a. greint frá því að Árni Mathiesen fjármálaráðherra hafi á fundi með fjármálaráðherrum í Evrópu hinn 4. nóvember 2008 fengið afar kaldar móttökur vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar til svonefndra Icesave-reikninga og að þess vegna hafi orðið að gera hlé á fundinum. Mér finnst eðlilegt að fundargerð frá þessum fundi verði lögð fram og ég spyr hæstv. utanríkisráðherra um hana.

Þá hefur einnig komið fram að ákveðið hafi verið að fimm manna nefnd miðlaði málum í deilunni. Hún mun hafa boðað fund til að birta niðurstöðu sína 7. nóvember 2008 en af því hafi ekki orðið þar sem niðurstöðurnar voru taldar með öllu óaðgengilegar fyrir Ísland. Hverjar voru niðurstöður þessarar nefndar? Ég vil fá þær niðurstöður sem þóttu þá svo óaðgengilegar. Menn voru orðnir sammála um að skipa þessa eins konar sáttanefnd en þegar öðrum aðilanum fannst það ekki passa fyrir sig féllst hann ekki á niðurstöðuna. Ég vil fá þá sáttatillögu sem þarna var lögð fram.

Það hefur líka rækilega komið fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur krafist þess að gengið yrði frá samningum við Breta, Hollendinga og Þjóðverja um þessa Icesave-reikninga áður en hann veitti heimild fyrir lánveitingunni. Það hefur komið rækilega fram. Þess vegna er það skrumskæling í orðum hæstv. utanríkisráðherra að núna þurfi eftir á að leita heimildar Alþingis til að semja um það sem þegar virðist vera búið að semja um því að annars hefði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki afgreitt lánið. Það sýnist liggja alveg kýrskýrt þannig að ég spyr: Hver voru þessi skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti? Hann hlýtur að hafa sett þau fram formlega. Það er eins gott að þau komi skýrt fram líka.

Það hefur líka komið fram að öll Evrópusambandsríkin tilkynntu að þau mundu beita sér gegn lánveitingum af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einnig annarra Evrópuþjóða til Íslands nema gengið yrði frá samningum við þessi ríki, Bretland, Holland og Þýskaland, áður en lánin yrðu veitt. Hverjar voru kröfur þessara ESB-ríkja? Það hefur komið fram og mig minnir að það kæmi fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra sem ég vitnaði til áðan að þau hafa hótað því að slíta EES-samningnum. Hvar liggja þessar kröfur fyrir sem hæstv. utanríkisráðherra vitnaði til og hefur verið vitnað til? Ég vil fá að sjá skjalfestar þessar þvingunarkröfur áður en lengra er haldið.

Það er mjög athyglisvert, og ég mun gera ítarlegri grein fyrir því í seinni ræðu minni, að fara í gegnum yfirlýsingar bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra í ferli þessa máls frá því í byrjun október. Það er líka athyglisvert að minnast þess að hæstv. forsætisráðherra sagði: Við látum ekki kúga okkur. Við erum aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á sjálfstæðum forsendum en ekki á þeim forsendum að sjóðurinn taki við skipunum frá öðrum ríkjum vegna deilna sem eru fullkomlega óviðkomandi þeirri lánsbeiðni sem þar er á ferð. Í þessa veruna talaði hæstv. forsætisráðherra. Ég er með þetta orðrétt í pappírum hjá mér og get vitnað til þess ef þörf er á.

En samt var látið kúgast. Hvað olli því að forsætisráðherra og utanríkisráðherra sofnuðu fullkomlega gagnvart þeim yfirlýsingum sem þau höfðu áður gefið þjóð sinni? Hæstv. utanríkisráðherra segir í viðtali 24. október að það hafi verið illmögulegt að uppfylla kröfur Breta vegna Icesave-reikninga, með leyfi forseta:

„… þessar kröfur sem uppi eru hjá Bretunum þær eru meiri heldur en við treystum okkur til að binda, eða þeir baggar, þeir eru svo miklir að við treystum okkur ekki til að binda þjóðinni þá bagga þegar til framtíðar er litið. Við hins vegar viðurkennum að við þurfum auðvitað að fara að réttum lögum (Forseti hringir.) en það er ágreiningur um lagatúlkun. Þeir eru svo miklir að við treystum okkur ekki til að binda þjóðinni þá bagga þegar til framtíðar er litið.“ Það er ágreiningur um lagatúlkun og sá ágreiningur hlýtur að standa enn. Með þessari þingsályktunartillögu, frú forseti, er girt fyrir það að hægt sé að sækja málið að lögum því að menn skrifa upp á alla upphæðina fyrir fram.