136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikils misskilnings gætir hjá hv. þingmanni um að verið sé að veita ríkisstjórninni heimild til greiðslu á einhverjum skuldum. Hér er verið að fá umboð Alþingis til að ljúka samningum á tilteknum forsendum og þeir samningar munu skuldbinda ríkið. Forsendurnar liggja fyrir og hafa alltaf legið ljósar fyrir að ákveðin lagaskylda er um að okkur beri að hafa tiltekna tilskipun í heiðri.

Hvað varðar samningana þá er ferlinu ekki lokið og ég held að hv. þingmaður hljóti að skilja að í miðjum samningum við önnur ríki er ekki upplýst um einstök gögn sem liggja til grundvallar afstöðu fyrr en samningum er lokið. Málið hefur verið kynnt utanríkismálanefnd í samræmi við 24. gr. þingskapa og haft um það samráð við nefndina. Öll gögn hafa verið lögð fyrir utanríkismálanefnd í trúnaði. Ekki einn einasti nefndarmaður hefur óskað eftir að aflétta trúnaði á gögnunum.