136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:50]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist rekstur bankanna ekki hafa verið á þeirra ábyrgð (Gripið fram í: Noh!) þegar þær skuldbindingar sem gerðar hafa verið í þessum Evrópulöndum falla á íslenskan almenning. (ÁPÁ: Það er á þeirra ábyrgð að hafa stofnað til þeirra.) Ja, sú ábyrgð er ekki mikils virði þegar það lendir á herðum Íslendinga að bera þá ábyrgð, ég árétta það. Hv. þingmanni verður mjög tíðrætt um siðaðar þjóðir og ég tek undir það að þjóðir eiga að vera siðaðar, en hvernig stendur þá á því að búið er að gera eitthvert samkomulag við Evrópusambandsríkin, og þar á meðal Breta, og samt standa hryðjuverkalög Breta enn þá á okkur? Þessi hryðjuverkalög voru studd og kröfur Breta nutu stuðnings Evrópusambandsríkjanna þegar þau kúguðu íslensk stjórnvöld, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, til að ganga að þessum kröfum til að fá lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það má segja að Evrópusambandið hafi í rauninni stutt eða skrifað upp á hryðjuverkalög Breta — og þá voru framin hryðjuverk og samkvæmt hegningarlögum skal refsa fyrir hryðjuverk með allt að ævilöngu fangelsi.

Hvers vegna standa þessi hryðjuverkalög þá enn? Ég spyr hv. þingmann um það úr því að búið er að ganga til þessara samninga: (Forseti hringir.) Hvers vegna var ekki gengið að þeim tillögum sem sáttanefndin lagði til? Hvers vegna bökkuðu menn út úr henni þá (Forseti hringir.) og vildu halda í hryðjuverkalögin?