136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur haft uppi aðvörunarorð um þær miklu skuldbindingar sem hér um ræðir. Það er full ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir það. Það var líka það sem ég leitaðist við að gera í ræðu minni, að leggja á það áherslu að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á 300 þús. manna þjóð sem hefur reynt að standa á bak við alþjóðleg stórfyrirtæki eins og bankana sem störfuðu hér á mörg hundruð milljón manna markaði.

Að því sögðu þarf hv. formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, Pétur H. Blöndal, ekki að koma í ræðustólinn og láta eins og að við höfum ekki þekkt lögin um Tryggingarsjóð innstæðueigenda, eins og að okkur hafi ekki verið ljóst hver mekanisminn var og hvað það þýddi að bankar opnuðu útibú í öðrum löndum. Það höfum við vitað um langt skeið og það tjóar okkur ekki, ekki frekar en það gerði í útrásinni þegar við hunsuðum aðvörunarorðin hvaðan sem þau komu, að létta af okkur þeirri ábyrgð með því að skattyrðast við einhverja í útlöndum sem séu ósanngjarnir gagnvart okkur. Hver maður ber ábyrgð á sinni eigin vegferð og við Íslendingar verðum auðvitað að horfast í augu við það að þessi starfsemi var að lögum á okkar ábyrgð og þó að það sé ekki einhlít lögformleg skylda okkar að greiða þetta hljótum við með frjálsum samningum þó við aðrar þjóðir að leitast við að rísa undir þeirri ábyrgð sem við kannski höfum að nokkru brugðist í störfum okkar á Alþingi á undanförnum árum.