136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hér er komin fram. Hún varðar leiðina til lausnar á því vandamáli sem við höfum kallað Icesave-vandamálið eða Icesave-deiluna á undanförnum vikum.

Það er í fyrsta lagi mjög virðingarvert að utanríkisráðherra skuli fara þá leið sem ekki er lagaskylda til, að leggja fyrir þingið tillögu til þingsályktunar um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samningana á grundvelli þessara tilteknu forsendna sem samstaða hefur náðst um enda er samningurinn ekki þess efnis sem að öðru jöfnu þyrfti samþykkis Alþingis við. Það er hins vegar mjög mikilvægt og í anda pólitísks mikilvægis þessa máls að það sé lagt fyrir Alþingi og að umræða fari fram um það á þinginu áður en gengið er til þeirra samninga sem samstaða hefur náðst um að gera á vettvangi Evrópusambandsins við bandalagsríki okkar um lok þessa Icesave-máls.

Þess misskilnings hefur gætt nokkuð í umræðunni að hér sé fyrst og fremst um að ræða eitthvert lögfræðilegt úrlausnarefni þar sem Íslendingar hafi haft mikinn rétt sem þeir afsali sér með einhverjum hætti með þeim samningum sem nú hafa náðst. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði hér áðan hvort rökin sem sett hefðu verið fram í málinu hefðu þá verið tómt fleipur og að rangt hefði verið að halda þeim fram. Það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld báru fram þær athugasemdir að hér hefði orðið kerfishrun og ekki væri einhlítt af þeirri tilskipun sem um ræðir hvort ábyrgðin væri fyrir hendi við slíkar aðstæður. Þetta eru fullkomlega boðleg lögfræðileg rök og algjörlega rétt að setja þau fram. Hins vegar var alveg ljóst að hvorki viðsemjendurnir né önnur Evrópusambandsríki deildu þeim sjónarmiðum með okkur. Í því felst engin kúgun, mannvonska eða mannhatur, eins og mér heyrðist hv. þm. Pétur H. Blöndal vera að reyna að gera Evrópusambandinu upp. Í því felst einfaldlega að þessi ríki deila ekki þessu sjónarmiði, (PHB: Skilningsleysi!) þau deila ekki þessu sjónarmiði.

Ég vil, fyrst hv. þingmaður kallar hér fram í „skilningsleysi“, vitna í hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sem sagði í umræðu um þessi mál að ef maður væri sjálfur á einni skoðun og allir aðrir í heiminum væru á einhverri annarri skoðun væri alla vega ekki útilokað að maður hefði rangt fyrir sér. Það er ekki útilokað, hv. þm. Pétur H. Blöndal, ef maður er einn á einhverri skoðun og allir aðrir, líka manns nánustu vinir, eru á annarri skoðun þá er ekki útilokað að maður hafi rangt fyrir sér. Það er alla vega varlegt að treysta því að maður hafi rétt fyrir sér að óathuguðu máli við þær aðstæður.

Rökin voru hins vegar ekki fleipur eða falsrök af þeim toga að rangt hefði verið að halda þeim fram. Þvert á móti tel ég að það hafi verið fullkomlega boðlegt að halda þeim fram. Af reynslu minni af milliríkjasamningum, þar sem ég hef haldið fram ýmsum lögfræðirökum, veit ég að rétt er að tæma vopnabúrið og kanna til hlítar hvort viðsemjandinn fellst á að taka tillit til þeirra raka. Það er alveg ljóst að Bretar og Hollendingar féllust ekki á þau. Kröfur Breta og Hollendinga hljóðuðu upp á skilyrðislausa ábyrgð. Í upphafi hljóðuðu þau upp á meiri ábyrgð en sem nam innstæðutryggingunni.

Það sem síðan hefur náðst — af því að menn tengja þetta mál Evrópuumræðu og reyna að gera úr því eitthvert agalegt skrímsli — vegna aðkomu Evrópusambandsins og vegna pólitískrar milligöngu Evrópusambandsins og formennskuríkis þess (Gripið fram í.) er skýr tilvísun til sérstöðu Íslands í þeim samkomulagsdrögum eða þeim umsömdu viðmiðum sem kynnt eru þinginu. Ég vil benda hv. þm. Pétri H. Blöndal á að lesa það nokkuð vandlega. Forsendan (Gripið fram í.) sem gengið er út frá er að tekið er tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og sagt að knýjandi nauðsyn beri til að ákveða ráðstafanir sem geri Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi landsins. Með öðrum orðum er sérstaða Íslands viðurkennd áður en gengið er til samningaviðræðna.

Hér hafa verið höfð uppi stór orð, m.a. frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni áðan um að verið sé að afsala einhverjum réttindum sem við höfum í dag. Við erum ekki að afsala nokkrum einustu réttindum. Ef þessir samningar ganga ekki fram með boðlegum hætti á næstu vikum verðum við aldrei verr stödd en við erum í dag. (JBjarn: Það er búið að skrifa upp á þetta.) Það er ekki búið að skrifa upp á neitt bindandi samkomulag um annað en að við ætlum að ganga til samninga á þeim forsendum að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands og gengið út frá þeirri forsendu að við séum bundin af þeirri tilskipun sem höfum leitt í lög hér á Alþingi. Við erum sannanlega bundin af henni.

Virðulegi forseti. Það er ekki eins og hér sé verið að afsala einhverjum rétti sem við hefðum annars haft í hendi. Hér er talað um að stjórnvöld hafi afsalað einhverjum rétti til að leggja mál fyrir dómstóla en sá réttur var einfaldlega aldrei í hendi, við höfum aldrei haft neinn rétt til að leggja þetta fyrir dómstóla. Eins og í öðrum þjóðréttardeilum höfum við haft möguleika á því sem sjálfstætt ríki að leita samkomulags við annað ríki, það ríki sem við eigum í ágreiningi við — sem sagt Bretland annars vegar og Holland hins vegar — um að það sé sammála okkur um að leggja málið fyrir dóm. Í þessu tilviki hefur ekki verið um slíkt samkomulag að ræða, þ.e. viðsemjendurnir hafa ekki viljað leggja málið fyrir dóm. Í þjóðarétti þurfa bæði ríkin að samþykkja dómstólaleið, það er grundvallaratriði í þjóðarétti. (Gripið fram í.) Það er grundvallaratriði í þjóðarétti, hv. þingmaður, og ég held að þingmenn sem tala mjög fyrir hefðbundum grundvallarreglum þjóðaréttar og á móti fjölþjóðlegum lausnum eins og Evrópusambandslausnum eigi að reyna að halda sig þá við þær grundvallarreglur sem þjóðaréttur byggir á. Þær eru að báðir aðilar þurfa að samþykkja að deilur fari fyrir dómstól. Sú aðstaða var einfaldlega ekki fyrir hendi í þessu efni og viðsemjandinn hafði rétt fyrir sér þar, við höfum engan rétt til að segja honum fyrir verkum. Hvorki Bretar né Hollendingar vildu dómstólalausn í þessu máli.

Hv. þm. Helgi Hjörvar rakti hér ágætlega áðan hvaða hagsmunir voru í húfi. Það eru heildarhagsmunirnir. Það er náttúrlega ekki hægt að horfa fram hjá því að innstæðukerfi það sem hér um ræðir er grundvallarforsenda fyrir fjármálalegum stöðugleika alls staðar í Evrópu í dag. Ef um það vakna efasemdir hvort innstæðutryggingar virka eða ekki standa mjög margir evrópskir bankar — og ég mundi segja allt evrópska bankakerfið — frammi fyrir hruni vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að almenningur í Evrópu viti að hann geti reitt sig á þessar innstæðutryggingar.

Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir eru auðvitað óvenjulegar og sérstakar. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að við berum ríkari ábyrgð á þeim en nokkurt annað ríki þannig að það er ekki óeðlilegt að við ábyrgjumst að innstæðutryggingin verði greidd. Í öðru lagi er algjörlega ljóst af þeim samningum sem náðst hafa að tekið verður tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi og því sérstaka hruni sem Íslendingar standa frammi fyrir. Ég velti því eftirfarandi fyrir mér: Hvað vilja rjómafleytingarkenningarmenn í alþjóðasamningum eiginlega fá út úr milliríkjasamningum? Þetta er ástand sem stafar af framgöngu íslenskra fyrirtækja í öðrum löndum. Við höfum vitað það missirum og árum saman að starfsemi í Bretlandi og í Hollandi færi fram á ábyrgð íslenska tryggingarsjóðsins. Innstæður duga ekki íslenska tryggingarsjóðnum og hverjum stendur þá næst að gangast í ábyrgð fyrir verkefninu og fyrir lúkningu skuldanna? Auðvitað okkur sem því ríki þar sem þessir bankar höfðu sveitfesti.

Ég spyr nú bara: Hvernig er hægt í öðru orðinu að ætlast til þess að hér sé glæsileg umgjörð fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi í þessu landi — eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur nú talað fyrir í fyrri tíð — og svo í hinu orðinu að segjast ekki ætla að axla þær byrðar sem af því leiða? Það stendur engri þjóð nær en okkur að bera grundvallarábyrgð á þessu máli. Hér hefur tekist gríðarlega vel til í þeim samningum sem staðið hafa yfir og ég tel sérstaka ástæðu til ljúka lofsorði á framgöngu utanríkisráðherra og utanríkisþjónustunnar í þessu máli. Ég tel að við höfum náð í þessum umsömdu viðmiðunum sem hér eru kynnt mjög mikilvægri viðurkenningu á grundvallaratriðum í hagsmunum Íslendinga og það er alveg ljóst að gengið verður til samninga á þeim forsendum að Ísland býr við sérstaklega erfiðar aðstæður, fordæmislausar aðstæður, og það verður útgangspunkturinn þegar sest er niður við samningaborðið. Mér er það til efs — og ekki bara til efs — ég tel að það hefði verið óhugsandi að ná slíkum samningum án milligöngu Evrópusambandsins þannig að í stað þess að eiga við ríkin tvö hvort í sínu lagi gætum við nýtt okkur meðalgöngu Evrópusambandsins. Ég held að það sé alveg ljóst að við höfum haft af því gríðarlegt gagn að leita samninga á vettvangi Evrópusambandsins um lausn í málinu.