136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að Bretar féllust ekki á rök Íslendinga að neinu leyti og þeir vildu að Íslendingar stæðu skil á þessum tryggingum að fullu og öllu leyti og þeir vildu jafnvel greiðslur umfram lágmarksinnstæðutrygginguna. (Gripið fram í.) Eftir aðkomu Evrópusambandsins er ljóst að hér er ekki um að ræða ábyrgð umfram lágmarksinnstæðutrygginguna og það er viðurkennt sem forsenda samninga um lausn málsins að gengið verði út frá sérstökum og fordæmislausum aðstæðum og erfiðleikum sem Ísland á við að glíma. Ef það er ekki viðurkenning á sérstöðu Íslands og milliganga veit ég ekki hvað það er. Ég held, virðulegi forseti, að hv. þingmaður verði aðeins að reyna að hemja óbeit sína á Evrópusambandinu og gæta nokkurrar sanngirni í málflutningi.

Hér er talað um að það sé kúgun og ofbeldi þegar 27 ríki eru á einni skoðun og eitt ríki á annarri skoðun. Ég verð að biðja hv. þingmann að fyrirgefa mér en ég skil ekki alveg í hverju kúgunin er fólgin. Vinir okkar Norðmenn deildu ekki skoðun með okkur heldur. Eru þeir þá að kúga okkur? Ég spyr nú bara. Hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að vera í Atlantshafsbandalaginu en meiri hluti þjóðarinnar er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að vera í Atlantshafsbandalaginu. Er þá verið að kúga hv. þingmann með því að meiri hlutinn ráði?

Virðulegi forseti. Á vettvangi þjóðaréttar ræður hver þjóð sínu atkvæði og sínum örlögum. Engin önnur þjóð innan Evrópusambandsins deildi þessu viðhorfi með okkur og Norðmenn deildu ekki þessu viðhorfi okkar. Það var einfaldlega engin þjóð á Evrópska efnahagssvæðinu tilbúin að deila þeim rökum sem við settum fram, enda verð ég nú að segja að þau rök sem við settum fram voru alls ekki einhlít. Þau voru langt í frá almenn lagatúlkun og það er ekki hægt að finna þessari lagatúlkun stoð í einu einasta fræðiriti á vettvangi Evrópuréttar.