136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfði mér að nota orðið kúgun og það er vegna þess að ég er að vitna í hæstv. forsætisráðherra Íslands sem margoft lýsti því yfir í fjölmiðlum — og ég er með tvær tilvitnanir í fréttatíma 6. nóvember síðastliðinn þar sem hæstv. forsætisráðherra segir ítrekað: „Við látum ekki kúga okkur til að blanda saman deilum um Icesave-reikninga og aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við látum ekki kúga okkur til þess. Ég treysti því og ég læt segja mér það tvisvar ef einhverjir ætla að koma í veg fyrir þessa afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með því að blanda saman óskyldum málum.“

Hvað skyldi Össur Skarphéðinsson, hæstv. iðnaðarráðherra segja í viðtali við fréttir Stöðvar 2 10. nóvember síðastliðinn? (PHB: Samflokksmaður.) Samflokksmaður hv. þm. Árna Páls Árnasonar. „Þetta eru auðvitað stórþjóðir,“ segir hann, „sem þarna eru að reyna að knésetja smáþjóð.“ Það stoðar lítið fyrir hv. þingmann að koma hér og hella úr skálum reiði sinnar yfir mig fyrir að nota orðið kúgun. Maður, líttu þér nær, segi ég bara og ég skora á þingmanninn að ræða um þetta við sína flokksmenn og þá sem hann styður til að stjórna þessu landi.

Ég hafði hugsað mér að setja hér fram tvær spurningar til hv. þingmanns. Ég verð að bíða með það til ræðu minnar. En ég vil vekja athygli á því að miklar fréttir fólust í orðum hans og ég mun óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra staðfesti þær, sem sé að Bretar hafi fallið frá þeirri kröfu sinni að við ábyrgjumst meira en lágmarkstrygginguna að upphæð 20.887 evrur.