136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur við að ég beri af mér sakir vegna þess að ég lagði alltaf, ætíð og sífellt til meiri fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins. Þetta er virkilega ósanngjarn málflutningur, virkilega.

Hv. þingmaður er sem sagt að segja að vegna þess að allt Evrópusambandið sé sameinað, þá hafi Íslendingar rangt fyrir sér. Allt í lagi, göngum út frá því að einhver maður leggi inn á reikning í Hollandi í útibú íslensks banka og bankinn fari á hausinn. Þá er það orðin sjálftaka á íslenska ríkissjóðinn. Það er bara sjálfvirkt. Hv. þingmaður fullyrðir að Fjármálaeftirlitið hefði getað stoppað þetta. Mér er sagt að það hafi ekki getað stoppað það vegna þess að innstæðurnar komu svo hratt inn, það voru svo háir vextir og það hafði ekkert með það að segja. Það var fjármálaeftirlit Hollands sem átti að sjá um greiðsluflæðið er mér sagt. Við gátum ekki stöðvað það að íslenskur banki opnaði útibú. Það þurftu að vera sérstök málefnaleg rök fyrir því að banna það þannig að þeir gátu opnað ný útibú. Síðan er það fjármálaeftirlit Hollands sem sér um greiðsluflæðið og það íslenska sem sér um eftirlitið árlega.

Þessir innlánsreikningar voru allir stofnaðir eftir maí í Hollandi, enda voru vextirnir mjög dægilegir. Og þessir reikningar, allir þeir aðilar sem lögðu þarna inn, þ.e. hv. þingmaður er að segja að þeir bara áttu sjálftöku á ríkissjóð Íslands og íslenska skattgreiðendur. Hvað heldur hv. þingmaður um stjórnarskrána sem bannar slíkt? Það stendur í stjórnarskránni að það sé bannað. Hv. þingmaður hefur svarið eið að henni. Er hann að segja að það eigi að vera sjálftaka og að Evrópusambandið hafi rétt fyrir sér? Ég fullyrði að það hefur ekki rétt fyrir sér.