136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer í marga hringi í málflutningi sínum. Hún átelur stjórnvöld fyrir að fara á bak við þing og þjóð en hins vegar lesa þingmenn Vinstri grænna í löngu máli upp ummæli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra sem lýsa málinu og afstöðu ríkisstjórnarinnar í smáatriðum.

Síðan kemur hv. þingmaður í lok málsins — það tók hana nú ekki nema tvær mínútur í einu andsvari að fara í heilan hring — og átelur ríkisstjórnina fyrir að hafa kynnt málið fimm mínútum fyrir kvöldfréttir. Í upphafi máls síns segir hún hins vegar að þjóðin þurfi að fá upplýsingar og átelur upplýsingaskort. Hvort vill hv. þingmaður upplýsingaleynd eða að upplýsingar séu settar fram? Það finnst mér ekki ljóst. (Gripið fram í.)

Það er algjörlega ljóst að hér hefur verið komið fram fullkomlega í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og ákvæði þingskapalaga um samráð við þing. Samráð við utanríkismálanefnd Alþingis hefur verið virt fullkomlega. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er umfram lagaþörf, alveg eins og það var umfram lagaþörf að leggja tillögu til þingsályktunar um fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir þingið.

Það er mjög jákvætt að ríkisstjórnin hefur sýnt mikinn vilja til að ræða þessi mál fyrir opnum tjöldum og ég held að það sé leitun á manni í íslensku samfélagi sem hefur ekki hugmynd um hvert umfang Icesave-skuldbindinganna er. Ég held að þær hafi verið svo mikið í opinberri umræðu á undanförnum vikum og mánuðum að allir viti um hvað málið snýst. Ég tel að það sé algjörlega fráleitt að halda því fram að ráðherrar hafi farið með einhverri leynd í þessu máli. Þvert á móti hefur það verið rætt fram og til baka.

Það sem kemur hins vegar núna í ljós er að mörg af þeim gífuryrðum sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa haft í frammi um þetta mál og eðli og umfang þessara skuldbindinga standast ekki. Það er líka að koma í ljós að mikill árangur hefur náðst af samningum fyrir milligöngu Evrópusambandsins. Það er náttúrlega sem eitur í beinum hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að árangur skuli hafa verið af þeirri málafylgju sem stjórnvöld hafa farið með (Forseti hringir.) á vettvangi alþjóðasamfélagsins og að við höfum náð betri árangri úr því samningaferli sem (Forseti hringir.) hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins en við hefðum ella fengið.