136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Íslendingar hafa orðið fyrir miklu áfalli og má skipta því í nokkra þætti. Í fyrsta lagi fóru þrír stærstu bankarnir á hausinn og þúsund milljarðar í hlutafé töpuðust og gífurlegar keðjuverkanir urðu um allt þjóðfélagið með uppsögnum o.fl. Síðan er glímt við u.þ.b. 300 milljarða af hræddum krónum, jöklabréfum og innlendum innstæðum sem vilja fara til útlanda og valda mikilli lækkun á krónunni, nákvæmlega eins og þetta sama fjármagn olli mikilli hækkun á krónunni þegar það kom til landsins.

Svo sóttum við um hjálp frá IMF og þá var sá ágæti sjóður misnotaður til að ná fram allt öðrum sjónarmiðum, þó að við höfum verið stofnaðilar og borgað í sjóðinn í hálfa öld. Síðasta áfallið er svo Icesave þar sem kemur í ljós að vegna galla í tilskipunum Evrópusambandsins gera Hollendingar og Bretar gífurlegar kröfur á íslenska þjóð.

Við ræðum, herra forseti, tillögu til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum. Hún er mjög stutt og ég ætla að fá að lesa hana, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“

Hv. þm Árni Páll Árnason sagði áðan að ég hefði ekki lesið þetta nægilega vel, en það hef ég gert. Þetta er afskaplega opið og felur í sér sjálfdæmi þeirra ríkja sem samið er við. Þess vegna get ég ekki stutt þetta og hef lýst því yfir, þó að í skjalinu standi, með leyfi forseta:

„Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“

Ég gæti stutt þetta og mundi styðja þetta ef við tilvitnunina sem ég las áðan bættist: Skal slíkur samningur lagður fyrir Alþingi til samþykktar. Ef það bættist við, hæstv. utanríkisráðherra, gæti ég staðið að þessu með glöðu geði vegna þess að þá vissu íslenskir þingmenn hvað þeir væru að samþykkja en hefðu það ekki svona galopið. Vel má vera að breyta megi þingsályktuninni þannig í hv. utanríkismálanefnd að það gangi og þá mun ég styðja hana, en svona opinn texta get ég ekki stutt. Ég get ekki veitt útlendingum sjálfdæmi um örlög Íslands. Ég hef nefnilega á síðustu vikum uppgötvað að hver hugsar um sig, þeir hugsa ekki um Ísland og taka ekkert tillit til aðstæðna hér, alla vega ekki stjórnmálamennirnir. Þeir rústa íslenskum fyrirtækjum eins og ekkert sé, eins og að drekka vatn, og sjá ekkert eftir því.

Ég nefndi að galli er í tilskipun Evrópusambandsins varðandi innlánsreikninga sem bitnar á Icesave-reikningunum. Í tilskipuninni stendur að kerfið skuli fjármagnað af innlánsstofnunum, ekki af skattgreiðendum. Við komum á kerfi sem var tilkynnt til útlanda og engar athugasemdir voru gerðar við það þannig að það virtist vera í lagi og allar framkvæmdir voru samkvæmt þeim reglum. Svo þegar kerfið bregst koma þessar þjóðir og segja — og breyta eiginlega um stefnu — að nú skuli íslenskir skattgreiðendur greiða þetta. Það er mikilvæg stefnubreyting og opnar beina leið í ríkiskassann á Íslandi, sem er bannað samkvæmt stjórnarskrá, þannig að við getum ekki fallist á þessa stefnubreytingu. Mér sýnist að loksins sé að renna upp ljós fyrir fjármálaráðherra Breta. Hann hefur nefnilega beðið um endurskoðun á innstæðutryggingarkerfi Evrópulanda. Það er nefnilega að renna upp fyrir honum ljós að sú breytta stefna sem hann og hollenskir félagar hans tóku gegn Íslandi gengur ekki upp.

Ef breskur banki fer á hausinn og Bretland á að borga innstæður þess banka um alla Evrópu er ég hræddur um að dálítið ljós renni upp fyrir breskum þingmönnum að skattleggja breskan almenning til fátæktar út af innstæðum úti um alla Evrópu. Það sama gildir um Hollendinga, sem eiga alveg gífurlegar innstæður, sérstaklega í Bretlandi. Hollenskir bankar í Bretlandi eiga gífurlegar innstæður. Ef einn slíkur banki eða fleiri færu á hausinn og hollenskir skattgreiðendur ættu að borga þær innstæður er ég hræddur um að hollenskir þingmenn samþykktu ekki þvílík ósköp.

Ákveðin veila í kerfinu er að koma í ljós og í stað þess að menn komi til Íslendinga og segi: Fyrirgefið, það er galli í kerfinu hjá okkur, við skulum hjálpa ykkur að ráða við þetta, við skulum aðstoða ykkur. Þá heimta þeir meira að segja vexti ofan á lánin sem þeir hafa veitt okkur. Hollendingar voru sérstaklega harðir á því að við borguðum vexti og vextirnir eiga að vera háir af því að Ísland hefur svo slæmt lánshæfismat eftir allar krísurnar. Það var nú allur skilningurinn á þeim bæ.

Auðvitað eiga lánin að vera vaxtalaus. (Gripið fram í.) Ekki hefur verið talað um að hafa þetta vaxtalaust. Það eina sem gerðist í Evrópusambandinu var að sameinaðir, Skandinavarnir með, náðu þeir slíku taki á Íslandi að Íslendingar gáfust upp. Við veifum hvítum friðarfána og segjum: Við gefumst upp.

Þannig er staðan, við skulum horfast í augu við það. Þetta eru friðarsamningar, við erum látin blæða fyrir gallað regluverk Evrópusambandsins og við höfum gefist upp, við skulum bara horfast í augu við það. Þeir sem gefast upp koma með hvítan fána og fá alla vega friðarsamninga, sem við fáum ekki enn sem komið er. Við gefumst upp fyrir ofbeldi og ofurvaldi Evrópusambandsins, svokallaðra vina okkar.

Síðan koma kröfuhafarnir, þýskir og evrópskir bankar, sem í töluverðu ábyrgðarleysi — mundi ég nú segja — lánuðu íslenskum einkaaðilum óhemju fé, 40 millj. kr. á hvern Íslending. Bera þeir ekki einhverja ábyrgð á að hafa lánað þetta óhemju fé, langt yfir þjóðarframleiðslu Íslands? Hver átti eiginlega að tékka það? Voru það ekki þeir, áttu þeir ekki að athuga gagnkvæmt eignarhald? Áttu þeir ekki að kynna sér lántakendurna? Nei, þeir gera líka kröfur og segja: Ef hér gerist eitthvað sem ekki er í sátt við okkur fáið þið engin lán í framtíðinni. Við þurfum ekki bara að sættast við Evrópusambandsríkin heldur líka við lánastofnanir og ég tel það mjög mikilvægt. Þess vegna vil ég að lánveitendurnir komi líka að borðinu í friðarsamningunum og allt sé gert á einu bretti, ekki samið sér við Hollendinga, sér við Breta og sér við lánardrottnana o.s.frv. Nei, þetta þarf að gerast allt í einum samningi og gæta þarf þess að aðalauðlind Íslendinga, mannauðurinn, fari ekki úr landi. Á því mundu allir tapa, kröfuhafarnir, Hollendingar og Bretar, því þá verður skuldin ekki greidd. Menn hljóta að átta sig á því.

Íslendingar hafa dottið inn í þetta kerfi vegna galla í Evrópusambandstilskipuninni. Auðvitað fóru einstakir einstaklingar óvarlega. Auðvitað má segja að regluverkið hefði mátt vera betra. Auðvitað áttum við á Alþingi að sjá í gegnum gallana í regluverki Evrópusambandsins, en við gerðum það ekki. Við gátum ekki séð þessa stöðu fyrir. Enginn sá fyrir að Kaupþing færi á hausinn, enginn sá fyrir að þrír bankar færu á hausinn. Ég hef ekki séð einn einasta spádóm um það.

Ég vil endilega, herra forseti, að ekki sé litið á afstöðu mína sem árás á hæstv. utanríkisráðherra. Ég hvet hana til dáða. Ég hvet hana til að standa vörð um þetta mikla áhyggjuefni Íslendinga og vona að hún nái góðum samningum. Ég vildi að hún hefði það í bakhöndinni þegar hún fer að semja að samningurinn verði lagður fyrir Alþingi því þá hefur hún miklu sterkara vopn í höndunum. Þeir sem semja við okkur eiga þá á hættu að Alþingi felli samkomulagið vegna þess að Alþingi vill ekki steypa þjóð sinni í áratuga fátækt.