136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það að afstaða Hollendinga og Breta hefur breyst mjög til batnaðar eftir að Evrópusambandið kom að málinu. Hv. þingmaður hlýtur að viðurkenna það þó að hann sé að öðru leyti haldinn miklum fyrirvörum í garð Evrópusambandsins eins og fyrri daginn.

Mér þykir líka ómaklega vegið hér að mér og flokkssystkinum mínum með því að halda því fram að það hafi verið einhver sérstök linkind og uppgjöf af okkar hálfu gagnvart Evrópusambandinu sem olli því að gengið var til samninga. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi staðið að þeim samningi sem gerður var. Ég veit ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi í reynd hafið samningaviðræðuferlið við Evrópusambandið á fundi fjármálaráðherra 4. október. Og ég veit ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hafi átt forgöngu um það ásamt hæstv. utanríkisráðherra að ganga frá samkomulaginu.

Ég skil ekki hvort hv. þingmaður er hér að reyna að láta að því liggja að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að skjóta sér undan ábyrgð í þessu máli. Það ber þá nýrra við ef sá flokkur er ekki til meiri stórvirkja en svo að hann sé hlaupinn burt frá verkum sínum áður en mál eru komin til nefndar, er bara farinn á harðahlaupum burtu við 1. umr. um málið. Þá bæri nýrra við og mér þætti gaman að heyra frá hv. þingmanni hvort hann talar hér fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í málinu og fyrir því að flokkurinn ætli ekki að bera ábyrgð á því.