136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan er það einfaldlega Seðlabankans að svara fyrir það hvers vegna Seðlabankinn kaus að lækka bindiskyldu útibúanna. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að það hafi verið mjög misráðið í ljósi staðreynda.

Það mun, eftir því sem ég kemst næst, hafa verið gert vegna þess að evrópski Seðlabankinn hafi almennt mælst til þess að það yrði gert úti um Evrópu. (Gripið fram í.) Það er hins vegar ekki bindandi. Það eru ekki lögbindandi tilmæli á einn eða neinn hátt. Seðlabankinn hafði allar lagaheimildir til að meta hlutina öðruvísi í tilviki Íslands. Það var ljóst að á sama tíma var Fjármálaeftirlitið að reyna að draga úr skuldbindingum þessara útibúa. En þá sem sagt ákveður Seðlabankinn að skrúfa frekar frá krana þeirra með afnámi bindiskyldunnar.

Hitt er eftirtektarvert að hv. þingmaður verður mjög uppstökk þegar minnt er á að það er einn leiðtogi í stjórnarandstöðunni sem hefur sérstaklega lagt lykkju á leið sína til að slá skjaldborg um formann bankastjórnar Seðlabankans. Það er bara atriði hins vegar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð kemst ekkert fram hjá, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lýst sérstakri velþóknun á embættisfærslum formanns bankastjórnar Seðlabankans. Ég veit að það er viðkvæmt mál fyrir marga í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði en það er bara einfaldlega staðreynd. Hann hefur meira að segja gefið honum þá einkunn að vera sérstaklega málefnalegur.