136. löggjafarþing — 38. fundur,  27. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[20:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta mál sem er keyrt áfram með afbrigðum í umræðu og til afgreiðslu þingsins lýtur að gjaldeyrismálum og lögum um gjaldeyrismál. Eins og hæstv. ráðherra gat um hefur þingflokkum stjórnarandstöðunnar verið gerð grein fyrir því að mál þetta þyrfti að koma fram og væri mjög brýnt að fá afgreiðslu mjög hratt. Hins vegar skal tekið fram strax að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ekki séð þetta þingmál fyrr en því var dreift núna og mér skilst meira að segja að fresta hafi orðið fundarbyrjun vegna þess að frumvarpið hafi ekki verið komið úr prentun. Þannig sést hve mikill hraði er á þessu og hve undirbúningur er lélegur og gefur það augaleið að við höfum ekki haft nokkur tök á að setja okkur inn í þessa þætti efnislega.

Við sjáum eins og tekið er fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að þetta er hluti af skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ég vil benda á þá þinglegu staðreynd að þingsályktunartillagan um skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er enn í meðförum þingsins. Hún hefur ekki hlotið afgreiðslu, það er enn verið að kalla þar eftir gögnum. Það liggur í sjálfu sér ekki fyrir fyrir fram að Alþingi samþykki það mál. Ég skal svo sem ekki draga það í efa en alla vega eru ekki komin nein gögn til þeirra nefnda sem fjalla um þingsályktunartillögu um skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þinglega er það því mjög óeðlileg málsmeðferð að koma hingað með lagafrumvarp sem byggir á því að uppfylla skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur Íslendingum og íslensk stjórnvöld hafa undirritað með fyrirvara reyndar um samþykki Alþingis. Ég vil undirstrika þetta.

Rökin fyrir frumvarpinu eru þau að þetta eigi að hjálpa til við að koma á gjaldeyrismarkaði og markaði fyrir íslensku krónuna og að hægt sé að setja hana á flot, og þá sé þetta heimild til mjög ákveðinna og harðra stýriaðgerða hvað varðar fjármagnsflutninga úr landi.

Eins og kemur fram í greinargerðinni, athugasemdunum, hefur íslenska ríkisstjórnin og Seðlabankinn þegar framkvæmt einn þáttinn af kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þ.e. að hækka stýrivexti í 18% auk þess, eins og segir í textanum, sem Seðlabankinn er tilbúinn til að hækka stýrivextina enn frekar, lesist: að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef þess reynist þörf.

Það hefur verið mjög umdeilt hvort þessi stýrivaxtahækkun hafi í raun áhrif á stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum eða ekki og er skemmst að minnast greinaskrifa og úttektar sem kom frá Glitni í gær, í Morgunkorni Glitnis, þar sem fullyrt er að stýrivaxtahækkun sé ekki til að styrkja krónuna eða styðja við jafnvægi á gjaldeyrismarkaði frekar en hitt. Auk þess hafa menn líka sagt að þessir háu stýrivextir geti orðið til þess að lama atvinnulífið, útflutningsgreinarnar sem okkur er brýn nauðsyn á að eflist og geti flutt út og skaffað gjaldeyri. Þær aðgerðir sem þarna eru í gangi gætu því virkað hver á móti annarri. Ég verð að segja fyrir mig að ég upplifi þetta sem stefnuleysi og óskhyggju eða ráðaleysi hvað gjaldeyrisviðskiptin varðar og áætlanir um hvaða markmiðum menn ætla að ná. Ég vil t.d. spyrja: Hver eru hin tímasettu markmið, hvert á gengið að vera, hver eru gengismarkmiðin, hver eru verðbólgumarkmiðin sem menn ætla að ná? Ég spyr líka: Seðlabankinn hefur fengið fjármagn til að standa að baki gjaldeyrisforðanum, hversu miklu fjármagni er bankanum heimilt að verja til að standa að baki krónunni til að halda henni í ákveðnu gengi? Allt þetta skiptir máli, hvað við erum reiðubúin að fórna í þessu sambandi, í frekar óljósum aðgerðum.

Sem dæmi um það hvernig mál ganga fyrir hér — og gæti verið fróðlegt fyrir þingheim að fylgjast með — þá var einmitt að koma frétt á Visir.is rétt áðan, kl. 18.38, þar sem stendur: „Viðskiptaráðherra frétti seint af greiðslunni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“ Og bara til að sýna hvernig þessi samskipti öll og viðskipti ganga fyrir sig á markaði ríkisstjórnarheimilisins þá stendur þarna, með leyfi forseta: „Tæp vika leið frá því að fyrsti hluti láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins barst til Seðlabankans þar til seðlabankastjóri upplýsti viðskiptaráðherra um greiðsluna.“

Þarna er sagt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lagt inn 827 milljónir bandaríkjadala eða jafnvirði 115 milljarða kr. inn á reikning Seðlabanka Íslands og lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé liður í því. En ég undirstrika að það leið tæp vika frá því að aðrir í ríkisstjórninni vissu að þetta margumsótta lán væri komið og enn þá erum við með óafgreitt mál um skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þinginu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum engin tök haft á að kynna okkur efni þessa frumvarps. Það var verið að dreifa því núna. Ég bendi bara á í hvers konar reiðileysisfarvegi þessi mál öll eru af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er sorglegt. En ég ítreka að það hefur áður verið gefið út að við munum ekki leggjast gegn því að málið fái þá afgreiðslu sem óskað hefur verið eftir en bendum á að þetta er óþingleg meðferð. Skilmálar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru enn þá til meðferðar í þinginu en samt byggist þetta mál á því að þeir séu samþykktir.