136. löggjafarþing — 38. fundur,  27. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[20:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Enn á ný erum við komin hérna saman í þingsal Alþingis til að samþykkja lagafrumvörp með afar stuttum fyrirvara, einhvers konar neyðarúrræði í þeim vanda sem íslenska þjóðin glímir nú við. Í mínum huga voru neyðarlögin kannski stærsta skrefið hingað til og ég held að við þurfum að skoða þau og athuga hvort við höfum ekki stigið þar einhver feilspor. Það sama verður að segja um breytingarnar á lögum um fjármálafyrirtæki, þá kannski sérstaklega breytinguna þegar kröfuhöfum var gert óheimilt að höfða mál fyrir dómstólum til þess að stöðva gjörninga skilanefndanna sem eru núna í einhvers konar greiðslustöðvunarformi.

En það er kannski annað mál. Nú er komið fyrir þingið frumvarp sem við þingmenn framsóknarmanna fengum að sjá fyrir örstuttu síðan. Ég skal vera stuttorður vegna þess að ég veit að það stendur til að klára þetta mál núna í kvöld eftir að það fer í viðskiptanefnd. Það sem mér finnst einfaldlega vanta í þetta frumvarp eru kannski skýrari markmið, hver sé tilgangurinn og hvað ríkisstjórnin sjái að muni gerast þegar krónan verður sett á flot. Það er rétt að vissulega mun mikið fjármagn fara úr landinu. Menn óttast ekki bara að jöklabréfin, sem kannski eru nú að stórum hluta farin — þá kannski íslenskan almenning frekar. Og hvaða væntingar gera menn til þess að setja krónuna aftur á flot?

Þá veltir maður líka fyrir sér til hvaða aðgerða þarf þá að grípa í kjölfarið ef hér verður mikil gengisfelling, mikil aukning verðbólgu. Á að koma í veg fyrir það að fjöldi heimila og einstaklinga fari í gjaldþrot? Vissulega er þetta mat hvort eigi að gæta að hagsmunum Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. En ég tel að það sé afar brýnt að strax í kjölfar þessara laga ráðist ríkisstjórnin í enn frekari og meiri aðgerðir en hún hefur nú þegar boðað vegna þess að ég tel að við megum alls ekki sjá heimilin fara í gjaldþrot. Ég held að það sé einfaldlega versta staða sem við sem þjóð gætum lent í.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki hafa fleiri orð um þetta. Við förum yfir þetta í viðskiptanefnd þó að tíminn sé naumur. Við framsóknarmenn höfum hingað til stutt neyðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar þó við höfum vissulega sett okkar fyrirvara þar á. Í fljótu bragði tel ég að við munum vera á sömu línu. En við skulum sjá hvernig vinnan verður í viðskiptanefnd.