136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er hálfundarlegt að ræða þessi mál á þessum tíma sólarhringsins miðað við það mál sem við erum nú að fjalla um í viðskiptanefnd. Mig langar samt til að koma inn á nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að komi fram.

Eins og nefnt hefur verið í umræðunni er verið að skuldbinda íslenska þjóð mörg ár fram í tímann og sumir segja jafnvel tugi ára. Við framsóknarmenn höfum kallað eftir gögnum sem skýra þetta mál betur út fyrir okkur. Gerð var viljayfirlýsing við Hollendinga og við óskuðum eftir því að við fengjum að vita hvað stæði í þeirri viljayfirlýsingu. Voru íslensk stjórnvöld búin að semja við Hollendinga og er það kannski ástæðan fyrir því að nú er samið á þessum nótum? Hver var aðdragandinn að því að íslenska þjóðin lenti í þeirri stöðu að Bretar ekki bara setji hryðjuverkalög á Landsbanka Íslands og beiti öðrum lögum sem knésetur stærsta fyrirtæki landsins heldur snúist öll ríki Evrópu gegn okkur og í rauninni neyði okkur til að semja um að borga að lágmarki 20 þúsund evrur á hvern reikning sem gera um 630 milljarða króna.

Tveir af okkar færustu lögfræðingum, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, hafa skrifað tvær blaðagreinar þar sem þeir skýra á mjög einfaldan hátt að í rauninni sé Ísland ekki skuldbundið til að greiða annað en það sem var í tryggingarsjóðnum eða um 16 milljarða og það er himinn og haf á milli þessara tveggja fjárhæða, 15–17 milljarða og 630 milljarða. Ef allt væri eðlilegt í þeim heimi sem við lifum í núna hefði að sjálfsögðu átt að fara með þetta mál fyrir dóm, láta reyna á gildi þessara samninga og hvort Íslendingar hefðu ekki staðið undir öllum skuldbindingum sínum eins og kom svo skilmerkilega fram að þeir hefðu gert í grein sem þeir skrifuðu í Morgunblaðið.

Nú er hins vegar staðan þannig að þjóðir Evrópu, eins og maður skilur þetta, vilja ekki láta reyna á dómstólaleiðina vegna þess að það gæti grafið undan fjármálakerfi Evrópusambandsins á einn eða annan hátt. Og þá spyr ég: Í hvernig veruleika erum við komin ef ekki er hægt að leita eðlilegra leiða fyrir þjóð eins og Ísland með aukaaðild að Evrópusambandinu og henni er meinaður aðgangur að réttarfarsleiðinni? Þetta brýtur gegn mannréttindasáttmálanum og í rauninni öllum alþjóðlegum sáttmálum sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur við en sýnir kannski fyrst og fremst þann mikla vanda og þá klípu sem við Íslendingar eru komin í.

Við í viðskiptanefnd stöndum frammi fyrir því að þurfa að samþykkja mál sem kom inn fyrr í kvöld og er vægast sagt mjög umdeilt. Þetta ber einhvern veginn allt að sama brunni, við stígum hér einhver skref, setjum lög í skjóli nætur, fáum örstuttan tíma til að fara yfir mál. Jú, það kemur fram að í versta falli gæti þetta og hitt gerst, en það hefur alltaf verið staðreyndin að allt það versta hefur gerst sem hefði getað gerst. Og nú stöndum við enn frammi fyrir því að þurfa að samþykkja í nótt lög sem menn reyndar segja að séu þannig að við gætum ekki bara verið að samþykkja 660 milljarða kr. kröfu sem skuldbindur börn okkar og heimili langt fram í tímann heldur séum við líka um leið að rýra traust erlendra þjóða og eyðileggja það með enn einum aðgerðunum sem koma frá þessari ríkisstjórn.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki sé tími til kominn að setjast niður og hugsa hvort það sé í rauninni ekki hægt að vinda ofan af vitleysunni á einn eða annan hátt, hvort við ætlum bara að ana áfram sama hvert það leiðir okkur vegna þess að ég held að við getum verið sammála um að staða Íslands er hreint út sagt skelfileg. (Iðnrh.: Hvar?) Hvar? spyr hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson. Ef (Iðnrh.: Hvar?) Hvar spyr hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson. Ef við samþykkjum að taka á okkur skuldbindingar upp á 660 milljarða held ég að við getum ekki sagt að staða Íslendinga sé neitt sérstaklega góð. Ég held að allir geti séð að ef við ætlum um leið að koma hér á haftasamfélagi (Gripið fram í.) til að reyna af veikum mætti að koma krónunni á flot verðum við afar illa sett, verð ég að segja. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig að sú umræða tengist beint samþykkt þeirrar þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu. (Gripið fram í.) Jú, vegna þess að í 19. gr. — nei, það er ekki alveg rétt hjá mér, ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að leiðrétta mig — en ég vil samt taka það fram að þetta er allt angi af sama málinu, af sömu klípunni sem við erum hér dag eftir dag að reyna að leysa úr. (Gripið fram í: Þetta er sameiginlegt skipbrot.) Já, það má segja í rauninni að hér sé um sameiginlegt skipbrot að ræða og við framsóknarmenn munum skoða þessa tillögu mjög vel og fara vandlega yfir hana í nefnd.