136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ljóst liggi fyrir að ef við hefðum valið að semja ekki og halda þessu sem milliríkjadeilu við Breta og þá Hollendinga líka, hefði, miðað við túlkun þessarar tilteknu tilskipunar Evrópusambandsins hjá öllum Evrópusambandsríkjunum, einfaldlega verið litið á þetta sem brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá hefði verið farið með það mál samkvæmt ákvæðum sem gilda um brot á samningnum. Þá væri hægt að grípa til heilmikilla aðgerða gegn okkur og Bretar áttu í sjálfu sér ýmis úrræði í því efni eins og t.d. hvað varðar útflutning okkar á sjávarafurðum yfir á breskan markað. Ég er því hrædd um að sú deila hefði ekki gert annað en að magnast og getað orðið okkur dýr. Við skoðuðum auðvitað hvað það hefði getað kostað okkur. Ef við hefðum kosið að halda áfram með málið á þeirri leið hefðu umtalsverðir fjármunir legið þar undir.