136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa látið beygja sig í þessu máli og ég þakka fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr skuli ekki hafa verið í forsvari fyrir þjóðina þegar við háðum fiskveiðideilurnar við Breta og aðrar þjóðir á sínum tíma, hún hefði lyppast niður á fyrsta eða öðrum degi.

Hér erum við að tala um samninga sem gerðir eru í skugga hryðjuverkalaga. Hryðjuverkalögin gagnvart Íslendingum eru enn við lýði eftir því sem ég best veit. Að sjálfsögðu hefði það verið grundvallarkrafa og er grundvallarkrafa að þessi lög verði numin brott áður en við svo mikið sem reynum að ganga til samninga við Breta. Þetta finnst mér vera algjört grundvallaratriði af hálfu fullvalda þjóðar sem vill láta taka sig alvarlega.

Síðan allt þetta tal um alla okkar góðu vini í Evrópusambandinu og NATO. Auðvitað vitum við hver veruleikinn er. Þegar ríkisstjórnin tók hér opnum örmum heimslögreglu kapítalismans, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, máttu menn vita hvað í vændum væri eða við hverju mætti búast, það yrðu settar á okkur þær þumalskrúfur sem við finnum nú fyrir.

Það er ekki þetta sem ég vildi fyrst og fremst vekja máls á, heldur vekja enn þá aftur athygli þingheims og þjóðar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, pólitískri ábyrgð. Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, sagði hér áðan að sparifjáreigendur í Bretlandi og Evrópu hefðu lagt inn á reikninga íslenskra bankaútibúa í góðri trú. Ég spyr: Hvers vegna skyldi það hafa verið? Það er í og með vegna þess að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, formaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. forsætisráðherra annars vegar, Geir H. Haarde, og hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar hins vegar, lögðust í víking með sjálfum útrásarvíkingunum, efndu til fréttamannafunda annars vegar í Kaupmannahöfn og hins vegar í New York til að stimpla það rækilega inn hjá þessum sömu sparifjáreigendum og við fjöllum núna um að óhætt væri að treysta íslenskum bönkum fyrir fé sínu.

Nú vitum við að hvernig sem fer fá þeir í sumum tilvikum aðeins hluta af eignum sínum bættan. Á þessum forsendum höfum við, við kröfu okkar um að efnt verði til kosninga og að ríkisstjórnin axli sína pólitísku ábyrgð, minnt á þessar heitstrengingar, m.a. af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, þar sem fólk er beint og óbeint hvatt til að leggja inn á þessa reikninga sem við fáum núna í bakið sem skattgreiðendur, og skattgreiðendur langt inn í framtíðina.

Ég saknaði þess svolítið að heyra hæstv. utanríkisráðherra, formann Samfylkingarinnar, fjalla um þennan þátt málsins, ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þar með hennar flokks á því hvernig komið er í þessum málum.