136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir um margt athyglisverða ræðu. Það var von okkar í stjórnarmeirihlutanum að um málið gæti náðst þverpólitísk samstaða en svo virðist ekki vera.

Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi er það umfjöllun hans um tengsl þessa máls við þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, um fjárhagslega aðstoð IMF. Nú er alveg ljóst að þetta frumvarp og þær breytingar sem í því felast eru sjálfstæð ákvörðun, þær skýrast hins vegar af þeirri stefnumörkun sem hefur verið ákveðin af hálfu ríkisstjórnarinnar í sambandi við samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og eins og kom raunar fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar eru þær ráðstafanir sem hér eru hugsaðar unnar í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þannig að með því að samþykkja þetta mál erum við vissulega að stíga skref í þá átt að vinna að framgangi þeirrar áætlunar sem unnin hefur verið í samráði við sjóðinn. Hins vegar hangir þetta frumvarp ekki saman við þingsályktunartillöguna, þarna er um að ræða sjálfstæðar ákvarðanir. Ég held að mikilvægt sé að halda því til haga.

Svo má geta þess í leiðinni að það var auðvitað ekki skylda að flytja þingsályktunartillögu um þessa yfirlýsingu gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í þinginu. Það má segja að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið að koma til móts við þingið með þeirri umfjöllun umfram það sem skýra skyldu ber til. Hins vegar vildi ég nota tækifærið í þessu andsvari til að inna hv. þingmann eftir því hver efnisleg afstaða hans til frumvarpsins er, hver efnisleg (Forseti hringir.) afstaða hans til þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér er vegna þess að ég heyrði það ekki í máli hv. þingmanns.