136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta misskilning hjá hv. þingmanni, að þetta séu ekki tengd mál, tillaga til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þetta frumvarp til laga. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni því það er meira að segja vísað til ákveðinnar greinar í þingsályktunartillögunni og vísunin notuð sem forsenda og rökstuðningur fyrir frumvarpinu sem lagt er fram.

Auk þess kom skýrt fram í máli framsögumanns, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, að þetta væri hluti af þeim kröfugerðarpakka eða skilmálapakka sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur og er lagður fyrir Alþingi til umfjöllunar, hvort sem hann er tæmandi eða ekki. Hv. þingmaður hefur kannski ekki áttað sig á því.

Eins og ég vísaði efnislega til áðan er þetta frumvarp hluti af þessum aðgerðapakka og verður að skoðast sem slíkt. Sá tími sem við höfum haft til að fjalla um það efnislega hefur verið mjög skammur og það er fjarri því að öll kurl séu komin til grafar í þeim efnum.

Varðandi þverpólitíska afstöðu til málsins þá sýndist mér vera ærið verk fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna að ná þverpólitískri samstöðu innbyrðis og ekki er alveg séð í hversu margar fylkingar það greindist. (Gripið fram í.) Ég hef gert grein fyrir því, hv. þingmaður, að við munum sitja hjá við afgreiðslu málsins. Við höfum ekki tafið framkvæmd þess á Alþingi en við munum sitja hjá og vísum ábyrgð málsins og framkvæmd þess á ríkisstjórnina. Það er skýrt.