136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Eins og einhvers staðar stendur, lengi getur vont versnað. Það sem við ræðum hér um miðja nótt, aðfaranótt föstudags, er breyting á lögum um gjaldeyrismál þar sem eftirfarandi er lagt til, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði í samráði við viðskiptaráðherra heimilt fram til 30. nóvember 2010 að setja reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga.“

Á íslensku þýðir þetta að við erum að taka aftur upp skömmtun og höft, höft sem munu kalla á meiri höft, við erum að hverfa aftur til fortíðar, því miður. Það úrræði sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fyrir þingið er í raun og veru neyðarúrræði í mjög erfiðri stöðu en ég tel að það sé að verulegu leyti við ríkisstjórnina að sakast hvernig fyrir málum er komið. Virðing framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar, fyrir löggjafarþinginu þaðan sem hún á að sækja sitt vald er engin. Við vorum boðuð hingað til fundar klukkan átta í kvöld og á fund í hv. viðskiptanefnd í framhaldi af því um hálfníu. Þar var okkur tilkynnt að þetta frumvarp, sem stjórnarflokkarnir höfðu reyndar farið yfir áður en við höfðum ekki fengið aðgang að, stjórnarandstæðingar, ætti að gjöra svo vel að klára á þessu kvöldi eða í nótt.

Kallaðir voru til gestir og fulltrúar framkvæmdarvaldsins komu á fund nefndarinnar og lýstu því yfir að það væri mjög nauðsynlegt að gera þetta og fóru ágætlega yfir það. En þegar næsti hópur gesta var kallaður inn, sem voru hvorki meira né minna en forustumenn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, brá manni heldur betur í brún vegna þess að ekkert samráð hafði verið haft við forustumenn stærstu launþegahreyfinganna í landinu og atvinnulífsins. Í raun og veru er það dálítið merkilegt í ljósi þess að þeir hafa allt frá fyrsta degi átt í mjög góðum samskiptum við ríkisstjórnina, hafa þeir tjáð okkur, varðandi þau vandamál sem hafa blasað við okkur á síðustu tæpum tveimur mánuðum. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru kallaðir til fundar í síðustu viku og þá voru haldnir fundir, væntanlega með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. En fulltrúar atvinnulífsins, aðilar vinnumarkaðarins, voru ekki kallaðir til fundar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þvert á það sem áður hefur tíðkast því að aðilar vinnumarkaðarins hafa leikið lykilhlutverk í því að koma að erfiðum málum nú um þessar mundir og það er því illskiljanlegt. Látum vera þó að ríkisstjórnin ákveði að hunsa litlu stjórnarandstöðuna á Alþingi en að kasta stríðshanskanum með þessum hætti til aðila vinnumarkaðarins er með ólíkindum. Ég upplifði fund viðskiptanefndar þannig í kvöld að friður væri rofinn á vinnumarkaðnum með framferði ríkisstjórnarinnar. Hverjir hafa ekki sagt í ræðustóli Alþingis að nú sé nauðsynlegt að allir gangi í takt? Við hljótum að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum var því ekki haft samráð við þá aðila sem gegna lykilhlutverki í því að leiða nýja þjóðarsátt og byggja upp nýtt Ísland? Ég held að stjórnaraðilar verði að svara því í þessari umræðu því að hér er um mjög stór mistök að ræða að mínu mati og aðilar vinnumarkaðarins hefðu þurft að koma fyrr að þessu máli.

Af hverju grípum við til þessa? Ég sagði í upphafi máls míns að ég teldi að ríkisstjórnin bæri ákveðna ábyrgð á því hvernig komið er fyrir málum. (Gripið fram í.) Ég hef það á tilfinningunni, hæstv. forseti, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beri tiltölulega lítið traust til íslensku ríkisstjórnarinnar og kannski ekki síst Seðlabanka Íslands. Reyndar er það svo að margir stjórnarliðar hafa lýst því yfir að Seðlabanki Íslands njóti ekki trausts þeirra. Samt er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna að Seðlabankinn gegni lykilhlutverki í því að taka ákvarðanir, mjög viðkvæmar ákvarðanir. Það er því alveg nýtt í mínum eyrum ef það er svo að yfirstjórn Seðlabankans nýtur almenns trausts samfylkingarmanna í þessu máli en Samfylkingin lagði sig mjög fram í nefndarstarfinu við að koma málinu í gegn. Ég vil líka geta þess vegna lýðræðisástar samfylkingarmanna, sem töluðu mikið hér í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, að við óskuðum eftir að fá fleiri aðila til fundar við nefndina, við lögðum fram lista og þar á meðal vildum við fá að heyra sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég ætla að rifja það upp að við lásum það í DV, við þingmenn, hver skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru, niðurlæging þingsins í því máli var algjör. Í þessu máli fengum við ekki að ræða við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Stjórnarliðar sögu að það væri ekki tími til þess að vinna málið frekar og kalla til fleiri gesti. Ef stjórnarliðar hefðu haft einhvern vott af vilja til að vinna að málinu með stjórnarandstöðunni hefði verið hægur vandi að boða til fundar í viðskiptanefnd klukkan fjögur í dag þegar markaðir lokuðu. Það hefði verið hægt að kalla til fjölbreyttan hóp gesta en ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að bíða fram í myrkur með fundarhöld og staðreyndin er sú að ég tala hér þegar klukkuna vantar kortér í fjögur að nóttu. Þetta eru hin lýðræðislegu (Gripið fram í.) vinnubrögð og samræðustjórnmál (Gripið fram í.) sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson boðaði í aðdraganda síðustu kosninga. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að sumir stjórnmálamenn ættu að skammast sín (Gripið fram í.) því að það er ekkert að marka það sem þessir aðilar sögðu í aðdraganda síðustu kosninga um siðbætur í íslenskum stjórnmálum og samræðustjórnmál. (Gripið fram í.) Þetta eru öll ósköpin.

Hæstv. forseti. Ég ætla að rifja það upp enn einu sinni að forseti Alþýðusambands Íslands hefur þurft að bera blak af ríkisstjórninni í alþjóðlegum fjölmiðlum og kannski síðast en ekki síst af blessuðum Seðlabankanum sem Samfylkingin treystir svo vel. Sjá stjórnarliðar virkilega ekki að stokka þarf upp í íslensku stjórnkerfi þannig að stjórn íslenskra efnahagsmála njóti einhvers trúverðugleika á alþjóðlegum vettvangi? Eru stjórnarliðar þeir einu sem ekki sjá að þar er hlegið að ríkisstjórninni og bankastjórum Seðlabankans?

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og ég ætla að halda því til haga í þessari umræðu að ríkisstjórnin ber sína ábyrgð á því neyðarúrræði sem hér þarf að grípa til og það er dálítið merkilegt að horfa hér til hv. þingmanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birgis Ármannssonar sem eru við það að fara að samþykkja að setja höft á viðskipti Íslands við alþjóðasamfélagið, höft og aftur höft. Og það verður leiðtogi lífs þeirra, seðlabankastjórinn Davíð Oddsson, sem mun hafa þar töglin og hagldirnar. Samfylkingin má eiga það að hún er að auka pólitísk völd Seðlabanka Íslands sem hún ber svo mikið traust til. Það er verið að gera með þessu frumvarpi. Síðan þráspurðu stjórnarliðar okkur stjórnarandstæðinga í nefndinni hvort við ætluðum ekki að samþykkja þetta frumvarp. Að sjálfsögðu eigum við að samþykkja þetta frumvarp, það treysta allir Seðlabankanum, er það ekki? Nei, 90% þjóðarinnar treysta ekki yfirstjórn Seðlabankans og það kemur ekki til greina að stjórnarandstaðan axli ábyrgð á þeim hrikalega afleik sem hér fer fram í dag og ríkisstjórnin hefur staðið fyrir síðustu daga, hrikalega afleik. (Gripið fram í: 93% vilja ekki Framsókn.)

Hæstv. forseti. Þegar við ræðum þá leið sem við lásum um í DV að ríkisstjórnin fór varðandi skilyrði gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá hélt ég að hún mundi hafa dug og döngun í sér til að standa að þeirri leið með trúverðugum hætti. En hver er staðreynd mála? Forustumaður ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi Íslendinga, formaður efnahags- og skattanefndar, Pétur H. Blöndal, hefur lýst yfir miklum efasemdum um þessa leið. Hver er þá trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar í því að hún ætli sér að framfylgja þessari IMF-leið að einhverju marki? Ríkisstjórnin hefði þurft og þarf að sýna ábyrgð og festu og fylgja þessari leið markvisst en ég gat ekki heyrt, eftir stutt samtal sem við áttum við gesti í nefndinni í kvöld, að það hefði verið ófrávíkjanlegt skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fara þessa leið. Ég heyrði engan mann á fundum nefndarinnar fullyrða það. Þarna eiga sér stað viðræður og því hefði verið nauðsynlegt að senda almennilegt lið í þær viðræður þannig að við mundum ná almennilegum árangri en ekki því verki sem við ræðum hér og stjórnarmeirihlutinn mun trúlega samþykkja, því miður.

Síðan er sérkapítuli, hæstv. forseti, framsetningin á þessum hildarleik. Ég held að talað sé um fangelsisvist og sektir í nærri því hverri einustu grein meira og minna, refsigleðin er þvílík. Ég bíð eftir því að þetta verði þýtt á erlend tungumál því að við erum svo sannarlega að senda þeim erlendu aðilum sem eiga hér fjármagn tóninn. Það kom reyndar fram á fundi nefndarinnar að trúlega gæti það orðið blómleg atvinnugrein í framhaldinu að byggja eins og nokkur fangelsi á grundvelli þessara laga því að refsigleðin væri slík. Nei, framsetningin er meira að segja ómöguleg. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu getað sýnt að þetta væri hluti af ákveðinni vegferð sem ríkisstjórnin væri á en því miður er stefnuleysið algjört hjá ríkisstjórnarflokkunum í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar. Við erum að ræða um að fara að taka upp höft og aftur höft, skömmtun á gjaldeyri, við ætlum að hverfa marga áratugi aftur í tímann. Og það er dálítið magnað, hæstv. forseti, að það skuli vera Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin sem standa frammi fyrir þessu. Svo eru hv. þingmenn þessara flokka (Gripið fram í.) afskaplega hissa á að stjórnarandstaðan skuli ekki styðja þá í þessari vegferð.

Hæstv. forseti. Ef útgöngudyrum er lokað kemur enginn inn og það kemur enginn inn á markað ef hann kemst ekki þaðan út aftur. Það er því mjög stórt skref sem við ætlum að stíga hér og ég tek undir með þeim sem hafa sagt að hér verði að vera um mjög skammvinnt ástand að ræða. Það kemur enginn inn á markað ef hann kemst ekki út af honum aftur, við hljótum öll að sjá það. Ef Ísland ætlar að skera sig úr í Evrópu og einangra sig mun ég aldrei styðja það til framtíðar. Það getur vel verið að til séu stjórnmálaflokkar sem vilja slíka einangrun að pólitíkusar hafi líf þegnanna í hendi sér og við hverfum aftur um áratugi þannig að stjórnmálamenn setjist í bankaráð ríkisbankanna og alþingismenn fari að hafa veruleg áhrif á það hvernig einstaka fjölskyldum úti í samfélaginu líður. Það er ekki Ísland framtíðarinnar að mínu mati.

Það er í raun og veru ótrúlegt og sorglegt og þyngra en tárum taki að sjá hversu létt er yfir sumum stjórnarliðum hér í kvöld þegar við ræðum þetta raunalega mál og nefni ég þar sérstaklega hv. þm. Árna Pál Árnason samfylkingarmann. Það er alveg eins og þetta sé einhver draumsýn. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru, hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Mér er hreint og beint ekki skemmt yfir því að þurfa að taka þátt í þessari umræðu.

Við getum velt því fyrir okkur hvað fólk hugsar þegar það stendur í þessu frumvarpi að það sé valdheimild hjá Seðlabankanum til að loka á gjaldeyrisreikninga. Hvað þýðir þetta fyrir venjulegt fólk? Á fólk að treysta því að leggja inn á gjaldeyrisreikninga og síðan loki stjórnvöld bara á reikningana? Nei, við hljótum öll að vera sammála um að hér verði að vera um afskaplega stutt tímabil að ræða og ég ræddi það á fundi nefndarinnar hvort ekki þyrfti að stytta þetta tveggja ára ákvæði. Það fékk því miður ekki hljómgrunn á vettvangi nefndarinnar. Reyndar er það svo að mörgum finnst eðlilegt að Alþingi Íslendinga afsali valdi sínu sem mest til framkvæmdarvaldsins þannig að ráðherrarnir geti hagað sér að eigin geðþótta.

Hæstv. forseti. Margt er hægt að segja um stöðuna eins og hún er og það var kannski átakanlegast að heyra það á fundi nefndarinnar eins og við höfum orðið vitni að á síðustu dögum hversu alvarleg staðan er hjá íslenska þjóðarbúinu og meira að segja stöndugustu fyrirtækjum íslenska ríkisins. Alþjóðlegir lánamarkaðir eru því miður að lokast og það er grafalvarleg þróun ef við horfum upp á það að fyrirtæki eins og Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja geta ekki fjármagnað sig með eðlilegum hætti af því að þau eru íslensk. Að sjálfsögðu verðum við að taka þessa þróun mjög alvarlega, þetta er spírall sem snýst mjög hratt þessi missirin. Við skulum þá líka spyrja okkur að því: Hvers lags bakhjarl er íslenska ríkið á bak við bankana? Það kom fram á fundi nefndarinnar að sumir efuðust um að íslenska ríkið væri einfaldlega nægilega burðugt til að standa á bak við íslensku bankanna. Ef svo er að bakhjarl íslensku bankanna er ekki nægilega trúverðugur verða menn að leita nýrra lausna. Því miður finnst mér ríkisstjórnarflokkarnir ekki tala í lausnum. Það er alltaf verið að reyna að ná utan um einhver vandamál sem koma upp þann daginn, það er engin skýr framtíðarsýn og engar lausnir boðaðar, enda eru þetta svo hrikalega ólíkir flokkar að þeir geta ekki komið sér saman um einföldustu hluti. Ég ætla ekkert að fara út í hvaða hlutir það gætu verið en við hljótum að gera þá kröfu til þessara stjórnmálaflokka að ríkisstjórnin sé með skýra framtíðarsýn. Það er annað sem við verðum vitni að á fundum viðskiptanefndar og það er að við fáum því miður ekki seðlabankastjóra á fundi nefndarinnar. Ég hefði haldið að í eins umsvifamiklu máli og þetta er ætti bankastjórn Seðlabankans að koma á fund nefndarinnar en það varð ekki en ég á von á að yfirstjórn bankans hljóti að koma og hitta nefndina að máli á næstu dögum í ljósi nýliðinna atburða.

Ég tel, hæstv. forseti, og ætla að ljúka ræðu minni á því, að birtingarmynd þessa máls sé sú að framkvæmdarvaldið er að valta yfir löggjafarvaldið með dyggum stuðningi 43 þingmanna. Þetta er hinn stóri og mikli meiri hluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, ráðherraræðið er algjört, því miður. Beiðnir um að fá fleiri aðila á fund nefndarinnar, jafnvel að hringja símtöl eru virtar að vettugi og þetta er allt mjög dapurlegt, sérstaklega í ljósi þess hversu mikilvægt mál þetta er. Við erum að tala um grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi og ef menn eru að tala um nýja Ísland og nýtt upphaf vil ég ekki sjá að þetta sé upphafið að þeirri vegferð. Við framsóknarmenn munum því ekki styðja vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Ég ætla að minna á það aftur að ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd á fundi viðskiptanefndar í kvöld af forustumönnum Samtaka atvinnulífisins og Alþýðusambands Íslands. Skyldi það vera einhver tilviljun að allir þessir aðilar láti heyra í sér og sýni mikla óánægju? Eða er það bara þannig að Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og öll stjórnarandstaðan hafi rangt fyrir sér, hér hafi verið staðið svo vel að málum undanfarna daga? Ég held ekki. Og ég hef miklar áhyggjur af því, hæstv. forseti. Ef við ætlum að sigla í gegnum þennan brimskafl á næstu tveimur árum er nauðsynlegt að við höfum Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands með okkur í þeirri sjóferð. Það er mikilvægt að allir standi saman og fyrir því höfum við framsóknarmenn talað í þinginu en því miður heyrði ég á forsvarsmönnum þessara samtaka að þeim var verulega brugðið við þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar og þessi vinnubrögð og þau eru að mínu mati með öllu óásættanleg. En ég vona svo sannarlega að við höfum hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og það grói um heilt í samskiptum ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins því að það er sameiginlegt verkefni okkar allra að takast á við þetta. Ég undirstrika enn og aftur að vandræðagangur ríkisstjórnarinnar og stjórnar Seðlabankans er m.a. valdur að því sem við ræðum hér í kvöld, því miður. Þetta er svartur dagur í sögu Íslands.