136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru ansi stór orð að þetta sé svartur dagur í sögu Íslands. Hér ræðum við frumvarp til laga sem á að heimila gjaldeyrishömlur og viðhald þeirra. Það er hins vegar alveg ljóst að bæði umfang þessara gjaldeyrishamla og tímalengd þeirra er ekki klöppuð í stein. Það er alveg ljóst líka ef hv. þingmaður hefði haft fyrir því að lesa nefndarálit meiri hlutans að þar kemur skýrt fram að vonast er til að þessar hömlur þurfi hvorki að vera jafnvíðtækar að umfangi og lögin kveða á um né standa í jafnlangan tíma og heimildin kveður á um, heldur þvert á móti að unnt verði að draga úr hvoru tveggja eins fljótt og unnt er.

Allir sem lesið hafa skýrslu starfsliðs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sjá að hinn stóri vandi sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir núna er hættan á verulegu gengishruni krónunnar. Það er hugsunin að baki þessari aðgerðaáætlun, að draga úr hættunni á því til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Það er gríðarlegt áhyggjuefni sem öll heimili og öll fyrirtæki standa frammi fyrir núna, sú stóra áhætta að þegar frjáls viðskipti með gjaldmiðla opnast verði hér verulegt verðfall á gjaldmiðlinum sem valdi verulegri hækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna og gríðarlegu áfalli fyrir þau heimili og fyrirtæki sem eru með gengistryggð lán. Þessar ástæður valda því að við erum að reyna að setja hömlur á gjaldeyrisútflæði úr landinu, það er bakgrunnurinn.