136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir málefnalegt andsvar. Það var ekki bein spurning í því til mín en ég var ánægður með það sem hv. þingmaður sagði í málflutningi sínum, auðvitað vonum við öll að þetta ástand vari ekki lengi.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hann sagði að hinn stóri vandi íslensks efnahagslífs væri staða krónunnar og gjaldmiðilsins — ég er einfaldlega ekki sammála honum í því — ég held að stærsti vandi íslensks efnahagslífs sé í raun og veru hversu lítil tiltrú er á stjórn Seðlabankans og ríkisstjórninni. Við þurfum ekki annað en að lesa alþjóðlegar fréttaskýringar um hvernig alþjóðasamfélagið lítur á það. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji ekki að endurskipuleggja þurfi með einhverjum hætti stjórnkerfið þannig að íslenskt efnahagslíf og íslensk stjórnvöld njóti tiltrúar á alþjóðlegum vettvangi. Það er lykillinn að því að við getum unnið áfram að styrkingu krónunnar af því að ímynd íslenskra stjórnmála og peningamálastefnan er náttúrlega grunnurinn að því að við byggjum krónuna upp á ný.