136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kann vel að meta þá hreinskilni sem hér kom fram. Að sjálfsögðu hljóta það að vera mjög þung skref fyrir hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson (Gripið fram í.) að samþykkja þetta mál.

Af því að hv. þingmaður vék að Framsóknarflokknum og meintu ábyrgðarleysi hans hér í þessari umræðu er það einfaldlega þannig að Framsóknarflokkurinn hefur ekki fengið neina aðkomu að ákvarðanatöku í þessu máli (Gripið fram í: Og heldur ekki …) og heldur ekki aðilar vinnumarkaðarins. Þeir sem axla ábyrgð á þessu máli eru að sjálfsögðu stjórnarliðar, aðalleikendurnir í þessu máli eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Það er alveg ljóst að þeim hefur mistekist hrapallega á undangengnum vikum, ég held að allir séu sammála um það. Annar stórleikandi er starfandi seðlabankastjóri Davíð Oddsson. Ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætlast til þess að Framsóknarflokkurinn axli ábyrgð á gjörðum þessara einstaklinga á síðustu vikum er það mikill misskilningur. Við studdum neyðarlögin á sínum tíma með góðum vilja, lögðum áherslu á að við mundum standa saman í framhaldinu, en ekki hefur verið viðhaft mikið samstarf við okkur á þeim vettvangi og við höfum ekki fengið mikinn aðgang að ákvarðanatöku, ekki frekar en fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands eins og merki sáust um í umræðu á nefndarfundi í kvöld.

Hæstv. forseti. Ég sagði hér áðan að það væri trúlega mjög erfitt fyrir viðkomandi þingmann að taka þessa ákvörðun og ég kann að meta það sem hann sagði hér áðan um að það væru erfiðir tímar. En að ætlast til þess að Framsóknarflokkurinn axli ábyrgð á því sem seðlabankastjórar og ráðherrar í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eru að gera, þar er farið fram á fullmikið.