136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er sennilega til of mikils mælst að Framsóknarflokkurinn axli ábyrgð í þessu, það verður að hafa það þannig. Ríkisstjórnarflokkarnir taka ábyrgð á þessu máli og víkja sér með engum hætti undan því. Um er að ræða erfiðar aðgerðir sem vonandi eiga eftir að verða skammvinnar. Það kemur skýrt fram í þeirri yfirlýsingu sem liggur til grundvallar fjárhagslegri aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að um verði að ræða tímabundin höft á gjaldeyrismarkaði, tímabundin höft á fjármagnsfærslum og það er lykilatriði í þessu sambandi. Hér er ekki verið að koma á varanlegu fyrirkomulagi, heldur er um að ræða tímabundnar aðgerðir til að bregðast við því óvenjulega neyðarástandi sem við eigum við að stríða þessa dagana.

Ég hafði ímyndað mér að Framsóknarflokkurinn hefði skilning á því og hefði haldið að Framsóknarflokkurinn, eins og hann sýndi ábyrgð þegar við samþykktum neyðarlögin, hefði til að bera þá ábyrgðartilfinningu að taka þátt í því að afgreiða þetta mál. Það hefur komið skýrt fram í umræðum hvernig á því stendur að þetta mál ber brátt að hér í þinginu og hvers vegna nauðsyn ber til að afgreiða það hratt. Skýringar hafa komið á því og ég hef ekki heyrt sjónarmið sem vega á móti þeim rökum sem þar búa að baki. Ég hef heldur ekki heyrt af hálfu hv. þingmanns rök gegn þeim efnisatriðum sem felast í frumvarpinu. Þarna eru ákveðnar ráðstafanir sem eru til þess að bregðast við neyðaraðstæðum og ég hef ekki heyrt rök frá hv. þingmanni sem vega gegn þeim rökum sem knýja okkur til þess að samþykkja breytingar af þessu tagi, sem vissulega eru óskemmtilegar. Það er óskemmtilegt að þurfa að taka þátt í þessu en aðstæðurnar (Forseti hringir.) neyða okkur til þess.