136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hv. þingmaður innir Framsóknarflokkinn eftir afstöðu hans til þess frumvarps sem hér liggur fyrir vil ég minna hv. þingmann á að málið er vanreifað. Við höfum ekki haft aðkomu að samningaborði gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við vitum ekki hvað fór fram á þeim fundum. Það vita hins vegar væntanlega stjórnarliðar hér í þingsal.

Að ætlast til þess að Framsóknarflokkurinn axli ábyrgð á gjörðum stjórnarliða í þessu máli er einfaldlega að fara fram á fullmikið. Það væri í raun og veru ábyrgðarleysi að samþykkja þetta frumvarp og treysta gjörðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans í ljósi þess hvernig haldið hefur verið á málum á síðustu vikum.

Því hafna ég því algjörlega að Framsóknarflokkurinn sýni eitthvert ábyrgðarleysi í þessari umræðu eða Frjálslyndi flokkurinn eða Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Við höfum einfaldlega ekki fengið aðkomu að þessu máli, við höfum ekki fengið að ræða til að mynda eins og í síðustu viku við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við báðum fulltrúa í meiri hlutanum um að fá að heyra sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins milliliðalaust, það hefði strax auðveldað einhverja ákvarðanatöku, en við fengum synjun um það. Það eru mjög málefnaleg rök fyrir því hjá stjórnarandstöðunni að sitja hjá í þessari umræðu og við megum þó eiga það að við höfum ekki staðið í vegi fyrir því að þetta mál yrði afgreitt hér. (Gripið fram í.) Hér er um neyðarúrræði að ræða en ég legg áherslu á að vandamálið er að verulegu leyti heimatilbúið vegna frammistöðu ríkisstjórnar og Seðlabanka á síðustu vikum. Við verðum því miður að stíga þetta afdrifaríka skref og ég vona svo sannarlega að þær heimildir sem verið er að veita Seðlabankanum í þessu frumvarpi verði lítið sem ekkert notaðar.