136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:11]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Til að stytta mál mitt vil ég byrja á að taka undir þau sjónarmið og rök sem komu fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, (Gripið fram í.) sem gerði grein fyrir því helsta sem stjórnarandstaðan hefur mátt þola í sambandi við þessa merkilegu lagasmíð.

Að öðru leyti vil ég minna þingmenn á að í upphafi stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að þeir flokkar sem mynda hana, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, hafi komið sér saman um að mynda — hvað hét það aftur — (Gripið fram í: Frjálslynda umbótastjórn.) frjálslynda umbótastjórn. Hvað felst í hugtakinu „frjálslynd umbótastjórn“? (Gripið fram í: Það væri gaman að vita það.) Maður skyldi ætla að með slíku hugtaki og slíkri merkingu væri miðað við að létta ætti af höftum, auðvelda viðskipti og samskipti milli manna, einstaklinga og þjóða, en hér er eitthvað annað upp á teningnum. Lagt er fram frumvarp um víðtækustu gjaldeyrishöft síðan 1962. (Gripið fram í.) Það á meira og minna að takmarka gjaldeyrisstreymi, maður er nánast kominn aftur til þess tíma þegar hér var starfandi innflutningsskrifstofa á Skólavörðustígnum — já, ég man eftir henni vegna þess að afi minn var forstjóri — og framkvæmdaráð. Þá voru tveir menn sem byggðu hús á Grenimel 8 ákærðir fyrir að hafa notað afgangssement eftir að byggingunni lauk til að byggja garð í kringum húsið sitt og máttu sæta lögsókn vegna þess að þeir áttu að skila sementinu til framkvæmdaráðs. Verður næsta skrefið í haftastefnu þessarar frjálslyndu umbótastjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að auka enn á höftin?

Hinn ágæti gestur Vilhjálmur Egilsson, sem lengi gegndi störfum sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og var einn helsti frammámaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að svo víðtæk höft kölluðu á endanum á meiri höft. Þar greinir á milli okkar sem erum raunverulega frjálslynd og hinna sem hafa þau orð stundum á vörum en meina ekkert með því eða skilja ekki hugtakið. (Gripið fram í.) Ég átta mig á því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skilur ekki alveg hugtakið eða hvað í því felst, enda væri hann ekki í þeim stjórnmálaflokki sem hann er í ef hann skildi það, en það er annað mál.

Hvert á að stefna? Ég minntist á sementið í garðinum á Grenimelnum og innflutningsskrifstofuna. Það vill nú þannig til að nefndur Vilhjálmur Egilsson talaði um að höft sem þessi leiddu af sér víðtæka spillingu og á fundi viðskiptanefndar rakti hann með mjög glöggum hætti í hverju hún mundi felast, hvernig menn mundu hækka innflutningsverð, lækka útflutningsverð og búa til ákveðinn gengismun sem þeir gætu síðan tekið til sín. Þetta var sú reynsla sem menn höfðu og framsýnir leiðtogar Sjálfstæðisflokksins, menn eins og Bjarni Benediktsson, Ólafur Thors, Gunnar Thoroddsen og Jóhann Hafstein, hinir raunverulega frjálslyndu menn í Sjálfstæðisflokknum, stóðu fyrir að afnema með dyggum stuðningi Alþýðuflokksins, manna eins og Gylfa Þ. Gíslasonar. Það var nú í þá tíð.

Á þeim tíma höfðum við innflutningsskrifstofu. Fyrstu kynni mín af Alþingi voru þau að ég var sendill hjá eina fyrirtækinu sem gat og átti möguleika á að flytja inn bifreiðar til landsins og á þeim tíma voru þrír staðir fastir í lífi sendilsins. Að fara niður í Alþingi til að ná í ákveðna pappíra hjá þingmönnum sem voru í fyrirgreiðslustarfsemi fyrir kjósendur sína, fara síðan í tollinn og síðan á innflutningsskrifstofuna til að fá pappírana stimplaða.

Þegar ég sat í viðskiptanefndinni í kvöld og skoðaði þau víðtæku ákvæði varðandi gjaldeyrishömlur sem hér eru lögð til af hálfu ríkisstjórnarinnar fannst mér ég allt í einu kominn í sama umhverfið og þegar ágætur framsóknarþingmaður úr Austur-Barðastrandarsýslu — sem hafði komist inn þannig að einu atkvæði munaði, enda var þá persónukjör og virkilega gaman að fylgjast með pólitík — var mjög duglegur við að útvega kjósendum sínum gasbifreiðar, sem menn þekkja sem rússajeppa. Margir aðrir voru mjög liðtækir og út af fyrir sig ekkert athugavert við það, þingmenn eiga að vera það. Þetta var umhverfið sem var á meðan gjaldeyrishömlurnar voru.

Við í Frjálslynda flokknum höfum viljað greiða fyrir þeim málum sem ríkisstjórnin hefur komið fram með til að greiða úr vandamálunum sem til eru komin vegna hruns bankanna og gjaldeyriskreppunnar. Við skoðuðum frumvarpið með jákvæðum hætti og vildum greiða fyrir því eins og mögulegt var. Við frekari skoðun á málinu kom í ljós að ekki er allt sem sýnist.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að málið er ótrúlega illa undirbúið, svo illa undirbúið að þegar fulltrúar einstakra stofnana ríkisins mæta á fund viðskiptanefndar hafa þeir hver sína skoðun á því hvað og hvernig skuli fara með og koma með mismunandi tillögur til breytinga á frumvarpinu. Þá hefði ég haldið að þegar um væri að ræða svo mikilvægt og gríðarlegt inngrip í frjálsa starfsemi markaðsþjóðfélags væri búið að tala við helstu aðila og að þeir væru alla vega með í ráðum, þau öfl sem skipta hvað mestu máli til að vinnufriður haldist í landinu og sæmileg eining um að komast út úr vandanum. Þannig hefði maður ætlað að rætt hefði verið við forustumenn Samtaka atvinnulífsins og forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðusambands Íslands.

Hvað kemur í ljós? Nei, ekki var búið að því, og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir um frumvarpið að afleiðingar þess geti orðið að peningar og eignir afskrifist í raðgjaldþrotum. Hann talar um að fyrirtækin komi til með að eiga erfitt með að fá lán og þá m.a.s. fyrirtæki eins og Orkuveitan, Landsvirkjun og Hitaveita Suðurnesja. Forseti ASÍ segir að þessi aðferðafræði bjóði upp á spillingu og að með því að fara þessa leið stöndum við frammi fyrir öðru fjármálahruni, annarri fjármálakreppu og að eigið fé bankanna hverfi í höndum þeirra og búið verði að loka öllum lánamörkuðum út á við.

Vilhjálmur Egilsson fór fram á það á fundi viðskiptanefndar að frumvarpið væri einfaldlega dregið til baka hið snarasta og talaði um að með ólíkindum væri að koma með þessi mál inn og halda að hægt væri að hækka gengið með þessum hætti. Ég tel Vilhjálm Egilsson vera einn merkasta hagfræðing þjóðarinnar og hann hefur mjög víðtæka stjórnmálareynslu. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að taka tillit til einhvers eins og hans sem maður treystir að fari með mál og hafi verulega mikla þekkingu á því sem um er fjallað. Maður hefði haldið að hitt hjólið undir tvíeykinu, Sjálfstæðisflokkurinn, hefði nú tekið eitthvert mark á því sem þessi fyrrverandi forustumaður í Sjálfstæðisflokknum hefði fram að færa og lagt það til einhvers grundvallar í þessum málum og með hvaða hætti eigi að stýra þjóðfélaginu út úr kreppunni.

Hv. formaður viðskiptanefndar, Ágúst Ólafur Ágústsson, í annars ágætri framsögu fyrir vondu máli, gerði mjög litla grein fyrir því hvað þeir gestir, sem fundu frumvarpinu meira og minna allt til foráttu, höfðu fram að færa. Ég hef þegar nefnt ummæli aðila vinnumarkaðarins, þ.e. forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins en einnig komu hagfræðingar frá bönkunum, Edda Rós Karlsdóttir, Ásgeir Jónsson og Ingólfur Bender, sem voru öll sammála um að stefnt væri í hið mesta óráð, hið versta mál, og komu að því með ýmsum hætti hvernig þeim fyndist þetta vera og töldu að æskilegast væri að fara aðra leið.

Ásgeir Jónsson orðaði það þannig að sennilega væri besta leiðin og sú einfaldasta til þess að við gætum sem fyrst og auðveldast unnið okkur út úr vandanum að auka frelsið frekar en að auka höftin. Þá hefði maður haldið að ríkisstjórn sem kallar sig frjálslynda umbótastjórn mundi frekar leita slíkra úrræða en að fara í hálfrar aldar gömul gjaldeyrishöft þar sem meginuppleggið í lagafrumvarpinu fjallar um hvaða refsingar skuli liggja við því að brjóta gegn ákveðnum ákvæðum. Refsiákvæði og sektarákvæði eru þyngd. Af hverju? Jú, vegna þungamiðju þess sem um ræðir og kemur fram í frumvarpinu í ákvæðum til bráðabirgða, hin víðtæku gjaldeyrishöft.

Vilhjálmur Egilsson benti sérstaklega á að ef grípa ætti til slíkra hafta bæri að hafa þau eins lítil og mögulegt væri og taka eingöngu til þeirra þátta þar sem menn teldu vera verulega hættu á og nefndi ákveðin atriði í því sambandi. Hann taldi hins vegar að á önnur atriði sem væru í ákvæðum til bráðabirgða væri gjörsamlega fráleitt að setja höft. Í umræðunni í viðskiptanefnd kom ekki til greina að fella eitt eða neitt niður eða takmarka með einum eða neinum hætti þá víðtæku haftastefnu sem hin frjálslynda umbótastjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar leggur til.

Þannig segir í 6. tölulið ákvæðis til bráðabirgða að óheimilt sé að hafa gjaldeyrisstreymi varðandi gjafir og styrki og aðrar hreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.–15. tölulið. Ekki er einu sinni hægt að vera með millifærslur í gjaldeyri hvað varðar gjafir eða styrki og er þá ansi langt seilst til fanga.

Ljóst er að ef frumvarpið verður að lögum, er ljóst að við förum gjörsamlega á svig við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, það liggur alveg fyrir. Miðað við upplýsingar sem liggja fyrir úr viðskiptanefndinni hafa engar tilslakanir verið gerðar og bandalagsþjóðum okkar ekki verið kynnt hvað eða hvernig eða hvort einhvers konar samkomulag geti legið fyrir eða vilji til að heimila þetta víðtæka inngrip í það almenna frelsi sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið byggir á m.a. varðandi frjálsa fjármagnsflutninga. Fulltrúar Samfylkingarinnar töluðu um fyrir síðustu kosningar að fjórfrelsið væri eitthvað heilagt, eilíft og óumbreytanlegt þannig að engu mætti raska. Þegar við frjálslynd töluðum um að íslenskur atvinnumarkaður væri í þvílíku uppnámi að nauðsynlegt væri að takmarka innstreymi erlends verkafólks ærðust sumir þingmenn Samfylkingarinnar og töldu að þetta væri hin versta atlaga að fjórfrelsinu og gjörsamlega útilokað að nokkur afsláttur fengist á þessari grein frekar en öðrum sem vörðuðu hið heilaga fjórfrelsi.

Eru einhverjar meiri líkur til þess að einhver afsláttur fáist á frjálsum fjármagnsflutningum þar sem við höfum ekki einu sinni eina bókun varðandi EES-samninginn sem við höfum þó varðandi frjálsan flutning á vinnuafli?

Nei, virðulegi forseti, það er nú einu sinni þannig að þetta er mjög sérstakt svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar, segir að frumvarpið sé lagt fram til að hjálpa blessaðri krónunni að komast aftur á fæturna. Af hverju þarf að hjálpa blessaðri krónunni til þess? Einfaldlega vegna þeirrar helstefnu sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa rekið og sérstaklega þá Seðlabankinn með að keyra upp stýrivexti og við glímum hér við uppsafnað vandamál vegna þess að Seðlabankinn hefur ekki verið tilbúinn til að horfa á heildarmyndina varðandi efnahagsstjórn þjóðfélagsins, heldur haldið uppi stýrivöxtum og knúið á um gríðarlega þenslu, neytt fyrirtæki til að taka lán í erlendri mynt og stuðlað með því að þeim gjaldeyrisskorti sem var frumorsök þess að viðskiptabankarnir féllu og við stöndum nú í verstu efnahagshremmingum sem við höfum upplifað, sennilega frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Hin frjálslynda umbótastjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ætlar sér nú og hefur knúið á um þetta haftafrumvarp og keyrt það í gegnum viðskiptanefnd í andstöðu við minni hluta nefndarinnar til að reisa sér óbrotgjarnan bautastein um með hvaða hætti (Forseti hringir.) stjórnarfleyinu var að lokum siglt endanlega í strand.