136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er komið aftur á dagskrá mál sem er í rauninni framhald á neyðaraðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ráðist í að undanförnu. Fyrst voru það neyðarlögin sem við framsóknarmenn ákváðum að samþykkja en því skal haldið til haga að við settum vissulega fyrirvara þar á. Það er því ekki alveg alls kostar rétt sem kom fram áðan í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar að við framsóknarmenn værum að berja okkur á brjóst. Það vill einfaldlega svo til með þau frumvörp sem við höfum samþykkt að einhvern veginn hefur allt farið á versta veg. Það virðist einhvern veginn alltaf gerast.

Þá velti ég fyrir mér hvort stjórnvöld stígi nú réttu skrefin. Ef ég horfi yfir söguna og skoða það sem stjórnarliðar hafa að segja kemur í ljós að þeir hafa enga sérstaka trú á því sjálfir. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að stjórnarliðar hafi enga sérstaka trú á því að aðgerð sú sem nú er ráðist í muni takast, þ.e. að koma einhverri mynd á krónuna, vegna þess að þeir keppast við að segja að hún sé handónýt.

Hver á þá að trúa því að hér hlaupi ekki allir úr landi um leið og hún verður sett á flot?

Málið snýst um að vekja tiltrú erlendra aðila á því sem hér er verið að gera. Þá spyr maður sig: Hefði ekki verið sniðugt í ljósi aðstæðna að hafa aðila vinnumarkaðarins með? Er það ekki einmitt til þess fallið að skapa tiltrú, að ræða við Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið, og hafa þau með í þessari vegferð og fleiri góða hagfræðinga? Frumvarpið og lögin komu þeim algjörlega í opna skjöldu og þau settu mikla fyrirvara við málið.

Fullyrt hefur verið í umræðunni að þetta séu skilyrði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég tel að það sé eitthvað til í því en vil samt taka fram að efasemdir komu fram um varðandi málið. Það gæti einfaldlega verið þannig að menn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum settu reglur og færðu okkur 50 ár aftur í tímann með því að koma aftur á gamla haftafyrirkomulaginu sem maður heyrir því miður ekkert annað en hryllingssögur um.

Fljótlega kom í ljós þegar við fórum yfir málið í viðskiptanefnd að viðskiptaráðuneytið og Seðlabankinn, þeir sem eiga að framfylgja láninu, gengu ekki í takt. Það var t.d. ágreiningur um hvort Seðlabankinn þyrfti að bera málið undir viðskiptaráðherra til samþykktar. Lagt var fram minnisblað þar sem það var gagnrýnt og þess óskað að því væri breytt. Það má líka velta vöngum yfir því að svona mikið reglugerðarvald sé sett í hendurnar á Seðlabankanum, að honum sé í raun veitt svo mikið vald eins hér er gert. Hverjir hafa lýst því yfir að þeir beri enga ábyrgð á gjörðum Seðlabankans? Það er annar stjórnarflokkanna, Samfylkingin, sem bókaði það í ríkisstjórn og lak því svo út til fjölmiðla að hún tæki enga ábyrgð á gjörðum hans.

Þegar ég sá frumvarpið fyrst skal ég viðurkenna að svo virtist sem setja ætti krónuna á flot. Hér ætti að veita út erlendu fjármagni en reyndar kom á daginn að það átti að vera mjög temprað. Það ætti að gera þetta í litlum skrefum en enginn gat samt útskýrt hvernig ætti að gera það. Það var bara ákveðið að hafa þetta eins vítt og opið og hægt væri þannig að hægt væri að tempra hér nánast allt, setja höft á nánast alla meðferð á gjaldeyri en ekki að setja krónuna á flot og ljúka málinu.

Fram kom í máli frá Samtökum aðila vinnumarkaðarins að þeir sem talað hefðu hvað mest gegn því sem er verið að gera væru ráðherrarnir sjálfir, það væru ef til vill þeir sem hefðu eyðilagt trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Þeir veltu líka fyrir sér hvort það gæti á einhvern hátt treyst hugmyndir útlendinga um hvað verið er að gera, að mismuna þeim þá enn frekar en gert hefur verið. Má kannski segja að útlendingum sé enn á ný gefið langt nef.

Þegar við setjum svona ströng skilyrði til þess að koma í veg fyrir að fjármagn flæði út kemur enginn með fjármagn inn í landið sem ég vonaðist annars til að mundi gerast. Það mun kannski hafa í för með sér að lífeyrissjóðir muni ekki sjá ástæðu til að koma heim með eignir sínar.

Vandamálið er kannski líka fólgið í því að Seðlabankinn, atvinnulífið og ríkisstjórnin hafa enga tiltrú á því sem verið er að gera. Þau hafa enga tiltrú á aðgerðum hvers annars. Því var velt upp hvort Seðlabankinn hefði komið að samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða hvort það væru einfaldlega þeir einir sem hefðu samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Fram kom að þeir samningar hefðu mátt vera kannski aðeins betri en reyndin varð á. Í rauninni vill enginn taka ábyrgð á „prógrammi“ IMF. Það sem gerist er að þessir 550 milljarðar, sem við þurfum á einhvern hátt að losa út úr landinu, munu bíða áfram í allt að tvö ár samkvæmt frumvarpinu á 20% vöxtum. Það verður því miklu dýrara að koma honum út ef við gerum það ekki strax. Þá er spurning: Er ekki betur heima setið en af stað farið með þetta frumvarp? Hvernig verður þá staðan á fjármálamarkaði? Verður eigið fé bankanna uppurið á tímabilinu? Upp komu vangaveltur um hvort við gætum átt von á fjármálakreppu í lok þessa tveggja ára tímabils.

Ég held að hægt hefði verið að fara mun mildara í þetta mál en hér var gert. Hér allt undir og kannski var það þannig að þegar menn fóru af stað og settu ein höft sáu þeir aðra glufu og vildu setja í hana og svo þá þriðju o.s.frv. Svo virðist sem kítta eigi í allar glufur þannig að við sjáum fram á sama haftafyrirkomulag og við höfðum fyrir hálfri öld.

Í frumvarpinu sjálfu kemur fram að frumvarpshöfundar telja sjálfir og viðurkenna að hér sé um að ræða brot á alþjóðlegum skuldbindingum. Í fyrsta lagi sé um að ræða brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningnum. Í öðru lagi fari það gegn samþykktum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og í þriðja lagi muni það brjóta í bága við skuldbindingar Íslands til að afnema höft á vöruviðskipti. Fram kemur að þegar frumvarpið er orðið að lögum eigi að tilkynna til annarra aðildarríkja hvað hér hefur verið gert. Hver ætli viðbrögðin verði? Ég held að menn séu afar bjartsýnir ef þeir trúa því að Evrópusambandsríkin muni taka þessu opnum örmum. Ég er afar svartsýnn á að það verði. Hvað gerist þá í kjölfarið? Það verður væntanlega kært, dómstólaleiðin farin. Erum við þá ekki um leið búin að koma í veg fyrir það sem við ætluðum að gera, að auka tiltrúna? Verður þá engin tiltrú á okkur að loknu þessu tveggja ára tímabil? Verður allt traust á íslensku efnahagslífi algjörlega fyrir bí?

Síðan er hér ákvæði í 1. gr. a, 3. mgr., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 75 millj. kr.“

Er það nóg? Hér getur verið um viðskipti að ræða sem nema milljörðum króna og þá er nú lítill fórnarkostnaður í að taka einfaldlega á sig þessa 75 millj. kr. sekt. Ég velti fyrir mér: Af hverju var ekki gerð bragarbót á ef stjórnarliðar telja að hér sé um svona mikilsverða aðgerð að ræða?

Það sem eftir stendur er að hér er um að ræða mjög dýra leið til þess að koma krónunni í gang, aðgerð sem fáir hafa trú á að muni heppnast, sem mjög margir setja stórt spurningarmerki við. Þetta er mál sem var unnið í andstöðu og ósætti við aðila vinnumarkaðarins. Kannski er það einfaldlega svo, eins og þeir orðuðu á fundi viðskiptanefndar áðan, að best hefði verið að málið hefði aldrei ratað út úr þingflokkum stjórnarliðanna.

Við framsóknarmenn munum því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls og lýsum ábyrgð þess algjörlega á hendur ríkisstjórninni.