136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:49]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ekki var haft eðlilegt samráð við stjórnarandstöðuna varðandi þetta frumvarp og ljóst er að það skortir á að nægjanleg samstaða sé um með hvaða hætti var unnið að undirbúningi. Það er ljóst að frumvarpið er afgreitt án eðlilegs samráðs við aðila vinnumarkaðarins og í fullri andstöðu við þá.

Við frjálslynd höfum talað fyrir öðrum leiðum í sambandi við gengismál sem væri mjög mikilvægt til þess að leiða þjóðina hratt út úr þeirri kreppu sem við erum í. Þetta frumvarp er lagt fram án samstöðu við stjórnarandstöðuna og keyrt í gegn af miklu offorsi. Við viljum ekki standa í vegi fyrir því sem gæti orðið til heilla fyrir þessa þjóð en höfum þó miklar efasemdir um þá leið sem verið er að fara. Þar sem ekki hefur verið um að ræða eðlilegan viðbúnað eða samráð og miðað við umbúnað málsins treystum við okkur ekki til að greiða atkvæði með þessu frumvarpi og munum sitja hjá.