136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[10:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í dagskrá fyrir þennan dag þá hefst hún á óundirbúnum fyrirspurnum þar sem tilteknir ráðherrar eiga að sitja fyrir svörum í þinginu og þingmönnum er gerð grein fyrir hverjir það verði. Nú gerist það að með stuttum fyrirvara er okkur tilkynnt að hæstv. menntamálaráðherra, sem áður hafði verið sögð vera í þinginu í upphafi þingfundar, mætir ekki og með nokkurra mínútna fyrirvara, rétt áður en þingfundur hefst, fáum við að heyra að hæstv. forsætisráðherra mæti ekki til þings í upphafi þingfundar eins og gert hafði verið ráð fyrir í dagskrá og upplýsingum sem þingmönnum höfðu verið veittar. Ég vil finna að þessu háttalagi við stjórn þingsins og koma þeim aðfinnslum úr ræðustóli á framfæri.