136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

samvinna við sveitarfélögin um atvinnuuppbyggingu.

[10:37]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem sveitarstjórnarmálaráðherra og hún varðar ákvörðun ríkisstjórnarinnar í sambandi við aðstoð eða samstarf við fyrirtækin í landinu. Hún er í 12 liðum og hefur verið tilkynnt opinberlega. Í 10. lið segir, með leyfi forseta:

„Lögð verði sérstök áhersla á mannaflsfrekar atvinnuskapandi aðgerðir í samstarfi við sveitarfélögin.“

Þetta er liður sem ég bind mjög miklar vonir við að geti gert gagn og geti komið sveitarfélögum og fólkinu almennt í landinu til hjálpar í sambandi við atvinnusköpun og að skapa ný störf. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála hvort samstarf og samráð hafi verið haft við sveitarfélögin um þennan lið eða hvort sveitarfélögin lásu bara um þetta í blöðunum eins og stjórnarandstaðan. Ég vil líka spyrja hvort fjármagn fylgir þessum lið og hvort hæstv. samgönguráðherra getur yfirleitt frætt okkur frekar um það sem hann sér fyrir sér að þessi 10. liður geti haft í för með sér eða geti skapað af störfum í landinu.