136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

samvinna við sveitarfélögin um atvinnuuppbyggingu.

[10:39]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er rétt að í þeirri ákvörðun ríkisstjórnar sem tekin var síðasta þriðjudag, um aðgerðir til stuðnings atvinnufyrirtækjum í landinu, er 10. liður mjög merkilegur þar sem fjallað er um mannaflsfrekar framkvæmdir og vitnað til sveitarstjórnanna. Ég er ákaflega ánægður með það og stoltur af því sem þar stendur eins og af öllu þessu plaggi.

Eins og oft hefur komið fram er mikið og gott samband á milli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, svo til vikulegir fundir. Á morgun er fundur með forsvarsmönnum sambandsins þar sem þetta mál verður tekið upp. En þetta er gert í framhaldi af því sem komið hefur fram hjá sveitarfélögunum, í samræðum okkar á milli, þar sem talað hefur verið um ákveðna heildarvinnu og samstarf, samráð og heildarskipulagningu á því hvað hér er verið að gera.

Ég get líka sagt frá því, virðulegi forseti, að við erum um það bil að ljúka þeirri vinnu í ráðuneytinu að fara yfir öll sveitarfélög í landinu og skoða hvað um er að vera, hvar framkvæmdir eru miklar, hvar litlar og hvernig horfa þurfi til þess. Og það verður gert. Upplýsingar um fjármagn munu koma fram í þeim breytingartillögum sem við munum leggja fram við fjárlögin. En við vitum það og þekkjum að verk eru misjafnlega mannaflsfrek. Viðhaldsverkefni geta t.d. tekið meira til sín af mannskap en hefðbundin nýbygging. Allt þetta er verið að skoða að því er snýr að samgönguráðuneytinu, sem eru þá vegaframkvæmdir, framkvæmdir á flugvöllum og siglingamálum.

Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.