136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

sparnaður hjá ríkinu og uppsagnir.

[10:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Finnar lentu í kreppu 1990–1994. Þá jókst atvinnuleysi stórlega og hefur ekki minnkað síðan, ekki að ráði. Aðilar vinnumarkaðarins og við á Alþingi höfum því breytt lögum um atvinnuleysistryggingar á þann veg að fólki sé frekar sagt upp að hluta heldur en að fullu.

Nú bregður svo við að Ríkisútvarpið ohf., sem heyrir reyndar undir menntamálaráðherra en er engu að síður ríkisfyrirtæki, segir upp fólki að fullu þvert á stefnu atvinnulífsins og Alþingis. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta verði stefnan hjá ríkinu í heild sinni. Um það bil 75% af útgjöldum ríkisins eru laun og lífeyrisgreiðslur og fæ ég ekki séð að hægt sé að skerða útgjöld ríkisins nema með því að lækka launakostnaðinn vegna þess að afgangurinn af kostnaði ríkisins, einn fjórði, er mikið háður gengi, innflutningur, lyf o.s.frv. Við þurfum því að skerða lífeyri eða lækka launakostnaðinn. En þá er það spurningin: Á það að gerast með því að segja fólki upp að fullu? Á það að gerast með því að lækka launin eða á að segja fólki upp að hluta eins og atvinnulífið er að fara inn á til að falla ekki í sömu gryfju og Finnar lentu í?