136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

skipalyftan í Vestmannaeyjum.

[10:54]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, jú, það er öllum auðvitað kunnugt um að Vestmannaeyjar eru eyjabyggð, það er ekkert nýtt og hefur verið unnið eftir því. Ég hef svo sem ekki miklu við fyrra svar mitt að bæta öðru en því að ég á þá ósk auðvitað heitasta að niðurstaða komi sem fyrst í þetta mál. Við verðum líka að gæta að okkur að gera þetta ekki þannig að við fáum ESA í hausinn vegna þess að við vitum af því, og það er kannski að tefja málið, að það eru ýmsir hér innan lands sem vaka yfir þessu máli og bíða eftir niðurstöðu og nefni ég engin nöfn önnur en samkeppnisaðila. Það er öllum ljóst og hefur alla tíð verið og þess vegna er eins gott að fara rétt að í þessu máli og fá góða niðurstöðu áður en farið er í framkvæmdir.

Ég nefndi það áðan, virðulegi forseti, að aðstoðarmenn okkar hafa verið að vinna að þessu máli, svo og þingmenn stjórnarflokkanna í umræddu kjördæmi sem eru drjúgir við það og minna oft á þetta mál og ýta á eftir því. En eins og ég segi þá á ég enga ósk heitari en að farsæl niðurstaða fáist í þetta mál en það verður þá innan þess (Forseti hringir.) ramma að við fáum ekki á okkur kæru út af málinu á eftir.