136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

viðvaranir Seðlabankans um ástand bankakerfisins.

[10:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Davíð Oddsson seðlabankastjóri kom á fund viðskiptanefndar í morgun til þess að gera grein fyrir afstöðu Seðlabankans vegna hruns bankanna á síðustu mánuðum. Í máli hans kom fram að stjórn Seðlabankans hefur á undangengnum mánuðum margvarað ráðherra ríkisstjórnarinnar við hruni bankanna. Eru þar nefndir forustumenn stjórnarflokkanna Geir H. Haarde, hæstv. forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. utanríkisráðherra.

Í júní sl. fundaði yfirstjórn Seðlabankans með ráðherrum í ríkisstjórn Íslands þar sem kom fram að það væru 0% líkur á því að bankarnir mundu lifa aðsteðjandi erfiðleika af, 0% líkur. Þetta vissi ríkisstjórnin í júní sl.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. bankamálaráðherra hvort hann hafi verið á umræddum fundum og hvort hann hafi verið á mörgum fundum með yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Það virðist vera, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra hafi ekki verið efnislega mikið inni í erfiðleikum bankanna því að hæstv. ráðherra skrifaði í Viðskiptablaðið í ágúst og á heimasíðu sína í september mikla lofræðu um stöðu íslensks efnahagslífs og banka. Það virðist því vera, hæstv. forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra hafi einfaldlega verið haldið frá fundum með yfirstjórn Seðlabanka Íslands og þó erum við að ræða hér um sjálfan hæstv. bankamálaráðherrann.

Ég spyr því, hæstv. forseti: Hafði ráðherrann enga hugmynd um grafalvarlega stöðu bankanna í sumar og reyndar fyrr? Ég spyr jafnframt að lokum í ljósi erfiðra samskipta Samfylkingarinnar, ráðherra Samfylkingarinnar og þingmanna, hvort hæstv. viðskiptaráðherra beri yfir höfuð eitthvert traust til yfirstjórnar Seðlabanka Íslands.