136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

viðvaranir Seðlabankans um ástand bankakerfisins.

[10:58]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Frá því að krónan féll um 30% í mars var öllum Íslendingum morgunljóst að við værum í efnahagslegum erfiðleikum. Það var hins vegar enginn sem spáði því, hvorki þá né síðar að það leiddi sjálfkrafa til þess að bankarnir féllu. Það gerist eftir fall Lehman Brothers 15. september og þá lausafjárkreppu sem nú ríkir alls staðar í heiminum.

Hins vegar liggur til grundvallar allri umræðunni stöðugleikaskýrsla Seðlabankans frá því í maí. Seðlabankinn hefur það hlutverk samkvæmt lögum að hafa eftirlit með fjármálalegum stöðugleika í landinu og í umræddri skýrslu kynnti Seðlabankinn formlega afstöðu sína til fjármálalegs stöðugleika í landinu og stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja sem hann sæi að væri samkvæmt skýrslunni almennt góð. Seðlabankinn dró það sterkt fram í skýrslunni að staða íslensku bankanna væri almennt góð borin saman við stöðu banka annars staðar í heiminum o.s.frv.

Hvað fór fram á einhverjum óskilgreindum fundum með seðlabankastjóra og einhverjum ráðherrum hef ég ekki hugmynd um. Ég fundaði með seðlabankastjóranum í nóvember árið 2007 og hitti Davíð Oddsson næst tæpu ári síðar á fundi ríkisstjórnar í september sem margfrægt er þegar hann kom þar og lagði til myndun þjóðstjórnar. Það var í fyrsta sinn sem ég hitti þann ágæta mann frá því í nóvember árið 2007. (Gripið fram í: Af hverju varstu ekki á fundinum?) Af hverju seðlabankastjóri kaus að kynna mér ekki viðhorf sín, sem þó komu ekki fram í gögnum bankans, formlegum og opinberum, eins og stöðugleikaskýrslunni hef ég ekki hugmynd um. Hann hlýtur að þurfa að svara fyrir það einhvers staðar annars staðar nema hann bregði fyrir sig bankaleynd, eins og hann gerði víst á fundi viðskiptanefndar í morgun þegar hann var spurður um yfirlýsingar sínar um það að hann vissi hvað varð til þess að Bretarnir ruddust inn í Singer & Friedlander. En alltént var ég ekki á þessum júnífundi og hef aldrei heyrt þessa frásögn hans. Ég hef hins vegar lesið ítarlega og margoft stöðugleikaskýrslu Seðlabankans frá því í maí þar sem (Forseti hringir.) ekkert slíkt kemur fram.