136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

viðvaranir Seðlabankans um ástand bankakerfisins.

[11:01]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú skulum við líta á staðreyndir. Í úthendunni Fjármálastöðugleiki árið 2008, sem var kynning Seðlabanka Íslands fyrir fréttamenn og bankana 8. maí árið 2008, stendur um stöðu bankanna, með leyfi forseta:

„Eiginfjárhlutföll bankanna eru viðunandi, afkoma þeirra úr fjölbreyttum rekstri er góð og eignir dreifðar. Lausafjárstaða bankanna hefur verið viðunandi en á hana reynir í ár.“

Þetta er orðrétt upp úr fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans frá því í maí og í sérstakri kynningu fyrir banka og fréttamenn 8. maí.

Þetta kemur fram í opinberum gögnum Seðlabankans. Af hverju blessaður bankastjórinn heldur því fram að hann hafi sagt eitthvað annað á óskilgreindum fundum með einhverju fólki sem hann nefnir ekki einu sinni til sögunnar hef ég ekki hugmynd um.

Þetta eru opinber gögn frá Seðlabanka Íslands og hví skyldum við vefengja þau? Hér stendur nákvæmlega það (Gripið fram í.) sem ég las upp áðan að Seðlabankinn sagði að lausafjárstaða bankanna, sem hann hefur formlegt eftirlitshlutverk með, (Forseti hringir.) væri góð og á hana hefði reynt, (Forseti hringir.) eiginfjárhlutföll væru viðunandi o.s.frv.