136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

svæðisstöðvar RÚV.

[11:05]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beinir til mín sem ráðherra sveitarstjórnarmála spurningu um svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins og mér er bæði ljúft og skylt að svara henni þó svo að málefni RÚV heyri undir annað ráðuneyti eins og öllum er kunnugt.

Sú ákvörðun stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. að ráðast á svæðisstöðvarnar er mér mikil vonbrigði. Ég veit, virðulegi forseti, að hv. þm. Einar Már Sigurðarson, þingmaður í Norðausturkjördæmi, hefur óskað eftir við þann þingmannahóp að kallaður verði saman fundur til að ræða ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um svæðisstöðvarnar. Mér er kunnugt um að hv. þingmaður hefur óskað eftir því að útvarpsstjóri og þá örugglega stjórnarformaður RÚV komi til fundarins og ég vænti þess og vona að hann verði haldinn sem allra fyrst og held reyndar að fulltrúar Norðvesturkjördæmis ættu að huga að því líka vegna svæðisstöðvarinnar á Ísafirði. Þar verður óskað eftir ákveðnum gögnum sem hljóta að liggja á bak við ákvörðun stjórnar RÚV. Mikilvægt er að fá þau fram og fjárhagshliðina og allt hvað þetta varðar, eins og tekjur af auglýsingum og hvernig þetta er yfir höfuð hægt.

Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að ákaflega mikilvægt er að þetta sé gert og ég fagna því að þingmannahópurinn ætli að taka þetta upp og óska eftir upplýsingum. Mér skilst af hv. þingmanni sem bað um þennan fund að spurningar verði sendar áður þannig að á fundinum verði bæði hægt að spyrja og fá svör.

En ég ítreka, virðulegi forseti, að þetta eru ákaflega mikil vonbrigði og ég er mjög mótfallinn því að ráðist sé á svæðisstöðvarnar eins og þarna er lagt upp með, (Forseti hringir.) því þær gegna mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni — eins og við þekkjum öll sem komum af því svæði.