136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[11:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsöguna með því máli sem hér er lagt fram og varðar breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga annars vegar og hins vegar lögum um gatnagerðargjald og er ætlað að koma til móts við sérstakar þarfir sveitarfélaganna og helgast af þeirri stöðu sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ljóst er að þetta er angi af miklu stærra máli sem eru tekjustofnar sveitarfélaganna almennt og möguleikar þeirra til að sinna því hlutverki sem þeim er falið að lögum.

Sveitarfélögin hafa um langt skeið vakið máls á því gagnvart stjórnvöldum að endurskoða þurfi tekjustofna þeirra, semja þurfi á nýjan leik um verka- og tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga vegna þess að þannig háttar til að það er löggjafinn, það er ríkisvaldið, sem setur rammann um starfsemi sveitarfélaga, sem ákveður hvaða verkefni sveitarfélögin skuli hafa með höndum og jafnvel hvernig þeim skuli sinnt — að einhverju leyti er það tilgreint í sömu lögum. En jafnframt er það löggjafinn sem ákveður tekjustofna sveitarfélaga og sveitarfélögin eru ekki nema að óverulegu leyti sjálfráða um það hvaða tekjur þau hafa. Þó að visst svigrúm sé t.d. innan útsvarsins eru á því bæði lágmark og hámark sem sveitarfélögin verða að starfa innan.

Það er líka ljóst að á umliðnum árum hafa sveitarfélögin verið að taka við æ fleiri verkefnum, lögbundnum verkefnum en líka öðrum verkefnum sem ekki eru beinlínis lögbundin en varða mjög miklu um heill og hagsmuni íbúa sveitarfélaganna og því mikilvægt að þau hafi þau með höndum. Einnig hafa í gegnum alþjóðlega samninga, og er ég fyrst og fremst að vísa til EES-samningsins, verið lagðar á sveitarfélögin ýmiss konar skyldur, m.a. á sviði umhverfismála, sem hafa haft í för með sér veruleg útgjöld fyrir sveitarfélögin án þess að þeim hafi verið bætt þau útgjöld með tryggðum tekjustofnum. Þetta er þekkt umræða og þekkt viðfangsefni milli ríkis og sveitarfélaga og mikilvægt, að mínum dómi, að treysta og efla eins og kostur er samskipti ríkis og sveitarfélaga og að ríkisvaldið komi fram við sveitarfélögin sem hinn handhafa hins opinbera framkvæmdarvalds en ekki eins og hver önnur hagsmunasamtök úti í bæ ef svo má segja. Þetta hefur mér stundum fundist skorta á í samskiptum ríkis og sveitarfélaga á undanförnum árum og þekki ágætlega frá þeim tíma þegar ég var um margra ára skeið borgarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Hæstv. samgönguráðherra mun hafa látið það koma fram hér að hann hafi lagt sig fram um að eiga góð og traust samskipti við sveitarfélögin og fundað reglulega með þeim og það er afskaplega jákvætt að standa vel að slíku samráði. Það kemur þó ekki í veg fyrir að skoðanir geti verið skiptar og ekki er þar með sagt að þó að oft sé fundað telji sveitarfélögin að þau hafi náð málum sínum fram. Það er allt annar handleggur.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir er sem sagt angi af miklu stærra máli og fyrst og fremst hugsað, eins og ég skil það, til að koma til móts við brýnar þarfir í augnablikinu, annars vegar að því er varðar fasteignaskattinn og lögveðið í honum, að rýmka þann tíma í fjögur ár frá gjalddaga. Ég held að það sé skynsamlegt við þær aðstæður sem nú eru að gera það. Það er ljóst að það gefur sveitarfélögunum meira svigrúm, meiri möguleika á að semja við íbúa sína og aðra greiðendur fasteignaskatts — veitir örugglega ekki af vegna þeirrar stöðu sem við erum í og vaxandi greiðsluerfiðleika þannig að ég held að það sé skynsamlegt.

Komið hafði fram ósk um að þetta yrði að nokkru leyti afturvirkt eins og ég hef skilið málið en hér er það ekki lagt til og vandséð að hægt sé að setja löggjöf af þessu tagi afturvirkt sem að einhverju leyti kann að vera íþyngjandi þó að það eigi eftir að skoðast betur.

Hvað varðar gatnagerðargjaldið er ég líka sammála því sem hér er lagt til, þ.e. með lengingu á tímanum úr 30 daga í 90 daga. Ég held að það sé hluti af því sem eðlilegt er að gera í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í í augnablikinu. Mig langar aðeins að víkja að því atriði sem kemur líka fram varðandi breytingu á þessu og það er ákvæði í 9. gr., um verðtrygginguna, að það falli brott. Hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hver ástæðan væri fyrir því að óeðlilegt væri að binda endurgreiðsluna við vísitölu og eðlilegt að sá sem hefði fengið lóð úthlutað, og af einhverjum ástæðum skilað henni, tæki á sig einhvern kostnað af slíku. Ég er út af fyrir sig sammála því að sá sem fær lóð úthlutað og vill síðan af einhverjum ástæðum skila henni þurfi að bera af því einhvern kostnað vegna þess að sannarlega hefur einhver kostnaður fallið á sveitarfélagið. Ég hef vissar efasemdir um þá leið sem hér er farin í því efni — og nú er rétt að halda því til haga, eins og ég hef sagt í þingræðum um önnur mál, að ég er mikill andstæðingur verðtryggingarinnar eins og hún leggur sig og tel að afnema eigi hana eftir því sem aðstæður gefa tilefni til og leyfa.

Það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir að kippa verðtryggingu úr sambandi í þessu samhengi án þess að tekið sé á henni heildstætt í sjálfu sér. Ég hef velt því fyrir mér hvort það væri þá skynsamlegra að þeir sem skila lóðum taki á sig hlutdeild í kostnaði við það með einhverjum öðrum hætti, t.d. með einhverju staðfestingargjaldi eða einhverju gjaldi upp í gatnagerðargjaldið sem sveitarfélögin hefðu heimild til að halda eftir frekar en fara inn í þessa verðtryggingu með þessum hætti þó ég undirstriki það að sjálfur tel ég að leita eigi leiða til að draga úr og afnema verðtryggingu almennt séð. En eins og ég segi, það er svolítið skrýtið að gera það bara þarna á meðan ekkert er verið að aðhafast í verðtryggingunni á öðrum sviðum. Þetta er hins vegar alls ekki stórt mál í þessu samhengi en ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til að ræða það frekar á vettvangi nefndarinnar og heyri þá kannski frekar sjónarmið sveitarfélaganna fyrir þessari leið þegar við fáum fulltrúa þeirra á okkar fund eða umsagnir frá þeim.

Frumvarpið er í sjálfu sér ágætt og um það á ekki að verða neinn sérstakur ágreiningur nema síður sé. Ég tel brýnt að það fái framgang þó að við áskiljum okkur rétt, þingmenn, til að skoða þær umsagnir rækilega sem berast um málið og hafa skoðanir á því þegar þar að kemur. Hitt er svo stærra mál, og miklu stærra, sem varðar tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, tekjustofna sveitarfélaga. Hæstv. ráðherra boðaði það fyrr í haust að hann hyggist beita sér fyrir heildarendurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Mig langar að nota tækifærið til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað þeim undirbúningi líður og hvar það mál er statt, heildarendurskoðun á lögunum um tekjustofna sveitarfélaga, og hvenær búast megi við að sú vinna fari í gang. Það er kannski stóra verkefnið fyrir sveitarfélögin í landinu að farið sé heildstætt yfir málefni þeirra.

Ég ætla ekki að fara frekar út í einstaka þætti. Ráðherrann nefndi m.a. 1.400 millj. kr. aukaframlag í jöfnunarsjóð sem ég tel að sé lífsnauðsynlegt, ekki síst fyrir minni sveitarfélög vítt og breitt um landið. Það skiptir verulegu máli og er umtalsverður hluti af tekjum þeirra og getur ráðið úrslitum um það hvort þau lifa þetta ástand af eða ekki. Það er mjög brýnt að á því verði tekið og við tökum frekar á því við fjárlagaumræðuna.

Virðulegi forseti. Ég get sagt fyrir mína parta að ég styð efnisatriði frumvarpsins en við munum væntanlega fara betur yfir einstök atriði þess í hv. samgöngunefnd.