136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[11:40]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir stuðningsyfirlýsingu við frumvarpið sem hér er sett fram þó að fyrirvari sé settur um vinnu samgöngunefndar sem er alveg hárrétt. En eins og hér hefur komið fram er þetta niðurstaða vinnu eftir að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lagði fyrir mig ákveðið aðgerðaplan eða áhersluatriði í samskiptum sínum við ríkisvaldið á næstunni sem það bað um að unnið yrði eftir. Þetta eru allt þættir sem þar eru á blaði og hefur allt verið unnið í mjög góðum samskiptum og samráði milli ráðuneytisins og sambandsins, lögfræðinga þeirra. Það er mikið samkomulagsatriði sem hér er sett fram, þetta frumvarp, og tekur á þeim þáttum sem rík áhersla var lögð á.

Hv. þingmaður ræðir um verðbæturnar og segir sig vera andstæðing verðtryggingar. Ég get sagt að ég sé það líka þó að okkur greini ef til vill á um hvernig best væri að afnema hana. Ég hef þá skoðun að best sé að afnema hana með því að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið en það er annar handleggur. En ég tel sjálfsagt að taka á þessum þætti þarna þó að hv. þingmaður telji skrýtið að við séum bara að taka á þessu en ekki öðru. Það er sjálfsagt að afnema þetta vegna þess að það er auðvelt. Það er ekkert eðlilegt við það, eins og kom fram í framsöguræðu minni, að fólk geti fengið lóð, haldið henni í 3–4 ár þess vegna, komið svo inn til viðkomandi sveitarfélaga og skilað henni og fengið hana verðbætta að fullu. En það þarf að vera klárt þegar úthlutun á sér stað hvaða reglur gilda. Þess vegna er það, virðulegi forseti, sem enginn treystir sér til að fara í þá afturvirkni sem ég veit að nokkrir sveitarstjórnarmenn hafa kallað eftir. Það getum við ekki, þetta er vernd gegn því, því að þetta voru þær reglur sem voru í gildi þegar úthlutun átti sér stað. En frá og með gildistöku þessara laga þurfa sveitarfélög ekki að úthluta með þessu fororði. Það er mikilvægt að það komi fram.

Hv. þingmaður spurði um skipun nefndar um að endurskoða tekjustofnalögin og hvenær það hefjist. Ég á þá von að það hefjist fljótlega á næsta ári. Í þeim darraðardansi, sem við höfum öll verið í, Stjórnarráðið, þingmenn og stjórnkerfið allt, höfum við sett þetta aðeins á bið. En það verður og hef ég m.a. ákveðið að fulltrúar þingflokka verði í þessari nefnd eftir ábendingum sem ég fékk frá fulltrúum úr samgöngunefnd, bæði frá hv. formanni hennar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, svo og frá hv. þingmönnum. Mér finnst það sjálfsagt vegna þess að um það eigum við að reyna að hafa sem mesta samvinnu að finna niðurstöðu hvað þetta varðar. Ég vona, virðulegi forseti, að okkur takist að koma þessari vinnu í gang fljótlega á næsta ári eins og ég hef reyndar boðað, bæði á fundum með Sambandi ísl. sveitarfélaga, fjármálaráðstefnu og öllum landshlutafundunum. Þar að auki er að hefjast vinna við endurskoðun á regluverki jöfnunarsjóðs og ég held að þetta sé allt að fara á fulla ferð.

Ég ítreka, virðulegi forseti, þakkir til hv. þingmanns fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Ég veit að það er í góðum höndum í samgöngunefnd að vinna þetta frumvarp sem hér hefur verið lagt fram.