136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað er dýr bíll? Hvar ætti þak að vera? Hv. þingmaður ræddi um bíl sem gæti kostað 5 milljónir. Ég nefndi í ræðu minni við 1. umr. bíla sem kosta miklum mun meira. 10 millj., 15 millj. Þeir eru líka óseldir hér á götunum. (Gripið fram í: Trukkar.) Ég er ekki að tala um atvinnutæki. Ég er ekki að tala um allar þær dýru og miklu vinnuvélar sem hafa runnið út úr landinu á undanförnum vikum og á eftir að verða til mikils skaða fyrir okkur þegar að því kemur að við getum farið að hafa not fyrir þær aftur.

Það er alveg hægt að gera greinarmun á því, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hvað er greinilega mikil offjárfesting og allt of dýrt til að ríkissjóður fari að blæða fyrir það í þessum efnum, og svo því sem ég nefndi áðan, ef menn geta komist að niðurstöðu um hvað gæti verið venjulegur fjölskyldubíll. Fyrir stóra fjölskyldu gæti jeppi þess vegna verið eðlilegt viðmið og það þarf ekki endilega að skoða fjölskyldustærð í því tilfelli, menn þurfa bara að taka ákvarðanir um hvar markið á að liggja.

Ég mótmæli algjörlega samlíkingunni við krabbamein og læknisþjónustu. Það er algjörlega valkvætt hvort og hvernig bíla menn kaupa sér. Það er það hins vegar ekki svo með krabbameinið og það þekkir sú sem hér stendur af eigin reynslu. Það er ekkert sem hægt er að bera saman í þeim efnum.

Ég vil líka benda á það, hv. þingmaður, að ég er ekki að ræða um innflutta bíla hjá bílaumboðunum. Ég nefndi sérstaklega að bílaumboðin hafa tekið gamla eða eldri bíla upp í nýja bíla og sitja þess vegna uppi með gríðarlega mikið af óseldum „gömlum“ bílum líka, ekki bara þær þúsundir sem eru á hafnarbakkanum. Ég tel því ekki, frú forseti, að hv. þingmaður hafi hrakið neitt af þeim röksemdum sem ég kom fram með í ræðu minni áðan.