136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mjög jákvætt að menn leiti upplýsinga og fái upplýsingar og ég yrði mjög ánægður að sjá upplýsingar um hve mikið væri verið að endurgreiða með þessum hætti.

Því miður voru menn að kaupa ótrúlega dýra bíla, venjulegt launafólk, með þessum lánatilboðum sem voru með veð í bílunum sjálfum. Ég hugsa að margur maðurinn, venjulegt launafólk sem skuldar kannski 10–15 millj. kr. og er með illseljanlegan bíl í höndunum geti í raun og veru ekki komist út úr þessari klemmu þó að þeir vilji. Ég tel að samþykkt þessa frumvarps geri fólki kleift að komast út úr þeirri klemmu með því að flytja bílinn út. Svo vil ég benda á að þegar bíllinn er fluttur út og fólk er búið að selja bílinn sinn þarf það hugsanlega að kaupa bíl aftur seinna, kannski fljótlega, og þá kaupir það sér hugsanlega minni og sparneytnari bíl sem mengar ekki eins mikið, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á mengun og hlýnun jarðar, hugsanlega kaupir fólk sér líka tvinnbíl eða einhvern bíl sem mengar lítið eða ekki neitt. (Gripið fram í: Og þá minnka bílarnir.) Það er spurning hvort menn séu ekki tilbúnir til þess. Þessi breyting losar einmitt þjóðina við þessa miklu bensínháka sem fara þá til útlanda og menga væntanlega þar en þeir menga þá ekki hér á landi og það kemur ekki niður á kolefniskvóta Íslands.