136. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir fáeinum dögum birtust oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, í flóðlýstu Þjóðmenningarhúsinu til að gera þjóðinni grein fyrir því að þau hefðu náð samkomulagi um breytingar á hinum illræmdu eftirlaunalögum sem kveða á um sérréttindi þingmanna og þó sérstaklega ráðherra og æðstu embættismanna sem svo eru nefndir. Við höfum ekki séð neitt frumvarp, neina afurð þessa samkomulags oddvita ríkisstjórnarflokkanna, nema hitt vitum við að hér er um að ræða nýja sérréttindaútgáfu ættaða úr bakherbergjum ríkisstjórnarinnar.

Ég vek athygli á því að fyrir þinginu liggur frumvarp frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem á afdráttarlausan hátt tekur af öll tvímæli um að þeir hópar sem hér var vísað til skuli fara inn í lífeyriskerfi almennra starfsmanna ríkisins. Einnig er tekið á því í frumvarpinu að þeir sem heyra undir Kjaradóm og búa við best kjör innan opinberrar þjónustu eigi að lækka í launum með tilteknum hætti. Ég spyr hæstv. forseta þingsins: Hvað veldur því að þetta frumvarp kemur ekki á dagskrá? Mér finnst mikilvægt að fá frumvarpið á dagskrá, helst í dag, þannig að þingið geti tekið afstöðu til þess.