136. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hefði kosið að fá afdráttarlausari svör um hvenær frumvarp okkar um lífeyrisréttindi og sérréttindi ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna, sem svo eru nefndir, verði tekið fyrir. En ég minni á og vara reyndar við þeirri hefð sem virðist hafa skapast þegar þingið fjallar um eigin sérréttindi að það sé jafnan gert í mikilli andnauð, með miklu hraði og stundum í skjóli nætur.

Ég óska eftir því að ef oddvitar ríkisstjórnarflokkanna ætla að leggja fram frumvarp í anda þess sem þeir boðuðu í Þjóðmenningarhúsinu á dögunum þá komi það fram hið fyrsta, þannig að við fáum tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingartillögur. Ég hef boðað það. Ég hef boðað breytingartillögur sem síðan verði bornar undir nafnakall þar sem þinginu gefst kostur á að færa þessi réttindi ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna, sem svo eru nefndir, inn í almennt kerfi ríkisstarfsmanna. (Gripið fram í.)

Nú er að vakna upp nýtt mál og það er hefnd Sjálfstæðisflokksins vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki einn um þessa afstöðu, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur orðað þetta líka, að ef sérréttindi verði tekin frá þessum sal og frá ráðherrabekknum skuli þess hefnt með því að skerða lífeyrisréttindi sjúkraliðans, slökkviliðsmannsins, hjúkrunarfræðingsins. (Gripið fram í.) Þetta er hefnd Sjálfstæðisflokksins sem núna er verið að hóta, að kalla þessi almennu réttindi launafólks hjá hinu opinbera, sérréttindi sem beri að svipta. Ég vara við þessari hefnd Sjálfstæðisflokksins. Þetta er ómerkilegt.